Fjóla bætti tveimur titlum í safnið

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK/Selfoss, bætti tveimur Íslandsmeistaratitlum í safnið á seinni degi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum sem lauk á Selfossi í dag.

Fjóla sigraði örugglega í 400 m grindahlaupi á 63,14 sek en Dagný Lísa Davíðsdóttir varð fimmta í hlaupinu á 72,56 sek.

Fjóla sigraði einnig í hástökki þar sem hún stökk 1,62 metra en Dagný Lísa varð í 4. sæti og jafnaði sinn besta árangur með stökki upp á 1,56 m. Dagný átti þrjár ágætar tilraunir við 1,59 en felldi í öll skiptin. Elínborg Anna Jóhannsdóttir varð í tíunda sæti í hástökkinu, stökk 1,32 m.

Endaspretturinn í 800 m hlaupi karla var spennandi en þar varð Kristinn Þór Kristinsson í þriðja sæti á 1:59,13 mín en 0,36 sek skildu að fyrsta og þriðja sætið.

Anna Pálsdóttir varð í þriðja sæti í kúluvarpi þegar hún kastaði 9,78 m og hún varð síðan fimmta í kringlukasti, kastaði 30,89 m.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir varð fjórða í þrístökki þar sem hún stökk tíu metra slétta og Elínborg Anna varð fimmta með 9,37 m.

Haraldur Einarsson varð fimmti í jöfnu 200 m hlaupi á 22,91 sek.

Ólafur Guðmundsson varð sjötti í kúluvarpi með kast upp á 11,89 m og hann kastaði 38,78 m í kringlukasti sem dugði honum í áttunda sætið. Dagur Fannar Magnússon varð tólfti í kringlukastinu, kastaði 26,15 m.

Botninn var sleginn í mótið með 4×400 m boðhlaupum þar sem kvennasveit HSK/Selfoss varð í 2. sæti á 4:12,30 mín en sveitina skipuðu Guðrún Heiða, Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Agnes Erlingsdóttir og Fjóla Signý.

Karlasveit HSK/Selfoss varð í 3. sæti á 3:40,48 mín en sveitina skipuðu þeir Haraldur, Ólafur, Rúnar Hjálmarsson og Kristinn Þór.

Í stigakeppninni varð lið HSK/Selfoss í 3. sæti samanlagt á eftir FH og ÍR. HSK/Selfoss fékk 20.129 stig. Kvennalið HSK/Selfoss varð í 2. sæti með 12.697 stig en karlarnir voru í 4. sæti með 7.432 stig.

Fyrri grein„Sláandi munur“
Næsta greinSlapp vel úr veltu