„Sumir segja að ég sé alltof steiktur”

Páll Óli Ólason, frá Litlu-Sandvík, er líklega einn þekktasti knattspyrnumaður landsins um þessar mundir, án þess þó að margir viti nokkur deili á honum.

Myndir af Páli Óla, sem leikur með Knattspyrnufélagi Árborgar, hafa farið eins og eldur í sinu um netheima og jafnvel ratað inn á vefmiðla í Skandinavíu.

Á myndunum hefur Páll Óli verið klipptur út úr mynd í leik með Árborg og settur inn á fjölmargar myndir þar sem hann stendur pollrólegur við ótrúlegustu aðstæður. Myndirnar hafa birst á vefnum flickmylife.com.

Upprunalega myndin birtist á sunnlenska.is og var tekin í deildarbikarleik Árborgar gegn Reyni Sandgerði í vor. Þar stendur Páll Óli í varnarvegg og beitir sérstökum aðferðum við að koma andstæðingnum úr jafnvægi.

„Ég las á Liverpoolvefnum www.kop.is að Luis Suarez hefði staðið í varnarvegg með hendurnar fyrir aftan bak og ákvað bara í gríni með sjálfum mér að „taka Suarez” á þetta. Ég vissi ekkert að það væri verið að taka mynd af mér og þetta var í eina skiptið í leiknum sem ég gerði þetta. En það virkaði, skotmaðurinn fór á taugum og spyrnan var slök,” sagði Páll Óli í samtali við sunnlenska.is.

Páll Óli segist ekki vita hverjir standi á bakvið klippimyndirnar en sumar þeirra eru mjög vel gerðar.

„Það gæti verið að einhver vinur minn hafi sent fyrstu myndina inn en ég hef ekki hugmynd um það hverjir hafa búið til hinar myndirnar. Ég held reyndar að höfundarnir séu fleiri en einn og margar myndanna eru mjög góðar. Ég held að bestu myndirnar séu þessar svarthvítu sem birtust í dag [20. júní].”

Fyrsta klippimyndin sýndi Pál Óla standa af sér sprengingu, önnur er í Pamploma nautahlaupinu og síðan hefur hann m.a. komið fram í Hvíta húsinu þegar Bin Laden var ráðinn af dögum, á veggspjaldi fyrir spennumyndina Chaos og verið viðstaddur þegar Lee Harvey Oswald var skotinn.

„Ég hef nú ekkert verið að fá neitt mikla athygli út á þetta en þetta er líklega ein leiðin til þess að vera frægur út á ekki neitt. Félagarnir hafa aðeins verið að skjóta á mann en ég hef bara gaman af þessu. Sumir segja að ég sé alltof steiktur á myndinni en mér finnst það nú ekki,” segir Sandvíkingurinn Páll Óli að lokum.

Myndirnar af Páli Óla má sjá í myndasafni hér til hægri.

Attached files

Fyrri greinHamar úr leik í bikarnum
Næsta greinÖskulag veldur óvissu um heyskap