Hamarsmenn fallnir í 1. deild

Karlalið Hamars féll úr Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Snæfelli í Stykkishólmi, 76-64.

Hamar er með 12 stig í 11. sæti deildarinnar og á einn leik eftir. Tindastóll og Fjölnir eru með 14 stig og hafa betur í innbyrðis viðureignum við Hamar, auk þess sem bæði lið eiga leik til góða.

Leikurinn í Stykkishólmi í kvöld var jafn og spennandi nær allan tímann. Staðan var 36-39 fyrir Hamri í leikhléinu en slakur kafli í 3. leikhluta gaf Snæfelli níu stiga forskot, 59-50, þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Hamar barðist fyrir sínu í síðasta leikhlutanum en náði ekki að minnka muninn og Snæfell fór með sigur af hólmi. Með sigrinum tryggði Snæfell sér deildarmeistaratitilinn þar sem ÍR vann stórsigur á KR á sama tíma, 124-95.

Devin Sweetney var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig og Darri Hilmarsson skoraði 15.

Fyrri greinSækja skíðamenn á jökul
Næsta greinSkíðamenn komnir til byggða