Jón Daði lánaður til AGF

Knattspyrnumaðurinn efnilegi Jón Daði Böðvarsson framlengdi samning sinn við Selfoss í dag en á morgun heldur hann til danska félagsins AGF að láni.

Jón Daði gerði samning til ársins 2014, en Selfoss mun fyrst um sinn lána Jón Daða til danska félagsins AGF í Árósum sem er í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í efstu deild þar í landi.

Jón Daði mun að öllum líkindum vera hjá AGF fram í apríl og kemur þá aftur á Selfoss og mun spila með liðinu í 1. deildinni í sumar. Ef AGF líst vel á Jón Daða og hafa áhuga á að fá hann keyptan þá yrði það eftir keppnistímabilið í haust.

Jón Daði, sem er 18 ára gamall, vakti verðskuldaða athygli í Pepsi-deildinni í sumar þar sem hann lék 21 leik með liðinu og skoraði 3 mörk. Þá hefur hann átt fast sæti í U19 ára landsliði Íslands á árinu og staðið sig vel á þeim vettvangi.

TENGDAR FRÉTTIR:
„Tel mig tilbúinn í næsta skref“

Fyrri grein„Meiriháttar leikur“
Næsta grein„Tel mig tilbúinn í næsta skref”