Laugdælir deildarmeistarar

Lið Umf. Laugdæla tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 2. deild karla í körfuknattleik í dag með sigri á Leikni í Iðu, 84-76. Þar með fóru Laugdælir taplausir í gegnum deildina í vetur.

Leiknismenn byrjuðu betur og leiddu í hálfleik með tveimur stigum, 29-31. Laugdælir fundu sig vel í sókninni í 3. leikhluta og þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 60-52.

Lokakaflinn var æsispennandi og Leiknismenn önduðu hressilega niður um hálsmálið á Laugdælum. Bjarni Bjarnason fór mikinn á lokamínútunum og setti m.a. niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur auk þess sem hann var öruggur á vítalínunni undir lokin.

Bjarni skoraði 21 stig í leiknum, Kristinn Ólafsson og Snorri Þorvaldsson skoruðu báðir 14 stig og þeir Gísli Pálsson og Sigurður Orri Hafþórsson voru báðir með 12 stig.

Fyrri greinÖskufallsspá
Næsta grein„Pétur búinn að pína okkur í allan vetur“