Fimleikastelpurnar svekktar í Leifsstöð

Fimleikalið Selfoss er fast í Leifsstöð en liðið á að keppa á Norðurlandameistaramóti juniora í hópfimleikum í borginni Jyväskylä í Finnlandi á laugardag. Hópurinn verður í Keflavík í nótt og á bókað flug til Helsinki í fyrramálið.

„Við erum búnar að bíða í átta tíma í Leifsstöð og stemmningin er svona upp og ofan,“ sagði Sigríður Ósk Harðardóttir, fimleikaþjálfari, í samtali við sunnlenska.is. Sautján manna hópur fer frá Selfossi á mótið en ferðafélagar þeirra er lið Gerplu sem einnig keppir á mótinu.

„Við erum búnar að bóka gistiheimili í Keflavík í nótt og það er búið að bjóða okkur að æfa í fimleikasalnum í Keflavík í kvöld til að létta andann aðeins,“ sagði Sigríður. „Þetta er ömurlega svekkjandi, stelpurnar eru búnar að vinna að þessu í marga mánuði og það gæti farið svo að við missum af mótinu. Við höfum mjög litlar upplýsingar en okkur skilst að það sé alveg jafn líklegt að staðan á fluginu breytist ekki. Við krossum bara puttana og vonum það besta.“

Sigríður segir að mótshaldarar hafi tekið þeim vel þegar fréttist af óförum liðsins. „Þeir eru búnir að bjóðast til þess að seinka öllu eins og hægt er ef við komumst á annað borð til Finnlands. Ef við komumst til Helsinki þá er tæplega þriggja tíma akstur í rútu til Jyväskylä þannig að við eigum langt ferðalag fyrir höndum.“

Fyrri greinStarf í boði í Noregi
Næsta greinDrepstokkur um helgina