Selfyssingar Íslandsmeistarar í 4. flokki karla

Selfyssingar tryggðu sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á eldra ári 4. flokks karla. Liðið varð þrefaldur meistari í vetur, deildar-, bikar- og Íslandsmeistarar.

Selfossi mætti HK í úrslitaleik í Fylkishöllinni. Fyrri hálfleikurinn var jafn, HK komst í 2-4 eftir tíu mínútna leik, en Selfyssingar sneru leiknum sér í vil í kjölfarið. Staðan var 10-10 í hálfleik. Í síðari hálfleik léku Selfosspiltar á als oddi, skoruðu fyrstu fimm mörkin í seinni hálfleik og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Lokatölur urðu 29-17.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk og var valinn maður leiksins. Haukur Páll Hallgrímsson og Daníel Karl Gunnarsson skoruðu 4 mörk, Þorsteinn Freyr Gunnarsson og Daníel Garðar Antonsson 3, Gunnar Flosi Grétarsson og Bergsveinn Ásmundsson 2 og þeir Sölvi Svavarsson og Aron Emil Gunnarsson skoruðu sitt markið hvor.

Alexander Hrafnkelsson átti stórkostlegan leik í marki Selfoss og varði 20 skot og Kári Kristinsson varði 1 skot.

Þjálfarar liðsins eru Örn Þrastarson og Sverrir Andrésson.

Fyrri greinÆgir missti niður tveggja marka forystu
Næsta greinSelfoss tapaði á heimavelli