Patrekur ráðinn þjálfari Selfoss

Handknattleiksdeild Selfoss hefur ráðið Patrek Jóhannesson sem þjálfara karlaliðs Selfoss og framkvæmdastjóra handboltaakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Sunnlenska.is skrifaði Patrekur undir þriggja ára samning við Selfyssinga í kvöld.

Patrekur, sem er fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, er gríðarlega reynslumikill þjálfari en hann hefur þjálfað austurríska landsliðið undanfarin sex ár. Hann hefur einnig þjálfað meðal annars hjá Val, Stjörnunni og Haukum.

Hann tekur við þjálfun karlaliðsins af Stefáni Árnasyni en samningur hans við Selfoss er að renna út. Sebastian Alexandersson hefur stýrt handboltaakademíunni undanfarin ár, þangað til hann lét af störfum fyrr á þessu ári.

UPPFÆRT KL. 23:38: Stjórn handknattleiksdeildar Selfoss hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þetta er staðfest og Patrekur boðinn velkominn til starfa á Selfossi.

Fyrri greinGróðureldur í Ölfusi
Næsta greinAfmælistónleikar nemenda Tónlistarskóla Rangæinga