EM-förum fagnað á Selfossi

Ungmennafélag Selfoss eignaðist um helgina átta verðlaunahafa á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum, og þar af tvo Evrópumeistara.

Mótið var haldið í Maribor í Slóveníu og er óhætt að segja að íslensku liðin hafi náð frábærum árangri og allir komu heim með góðmálma utan um hálsinn.

Stúlknalið Íslands tryggði sér Evrópumeistaratitilinn örugglega með frábærri frammistöðu en í liðinu voru þær Júlíana Hjaltadóttir og Aníta Sól Tyrfingsdóttir frá Selfossi.

Blandað lið unglinga varð í 3. sæti eftir harða keppni. Úrslitin réðust í síðustu greininni þar sem íslenska liðið sýndi frábærar gólfæfingar liðsins sem lyftu þeim upp í 3. sætið.Hekla Björt Birkisdóttir var einn liðsmanna blandaða unglingaliðsins.

Í blönduðu liði fullorðinna áttu Selfyssingar fjóra fulltrúa, þau Margréti Lúðvígsdóttur, Eystein Mána Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson og Rikharð Atla Oddsson. Liðið stefndi á bronsið og náði því takmarki sínu með glæsilegri frammistöðu og góðri hækkun á heildareinkunn frá því í undankeppninni. Þetta eru fyrstu verðlaun sem blandað lið frá Íslandi hlýtur í fullorðinsflokki á EM.

Að lokum vann Ísland silfurverðlaun í kvennaflokki eftir geysilega harða keppni við Svía. Í lokin var mjög mjótt á mununum en íslenska liðið hafði sýnt frábærar æfingar á trampólíni og gólfi. Svíarnir skákuðu Íslendingunum hins vegar á gólfinu og að lokum skildu 0,284 stig liðin að. Eva Grímsdóttir var í kvennaliðinu.

Landsliðsfólkið kom heim seint í nótt en í kvöld var haldin móttaka í íþróttahúsinu Baulu á Selfossi sem var vel sótt og sunnlensku keppendunum mikið fagnað. Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, ávörpuðu keppendurna og Ásta færði þeim lítinn viðurkenningarvott frá sveitarfélaginu. Evrópumótsfararnir verða svo hylltir frekar á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar milli jóla og nýárs.

Að lokum voru gestum boðnar veitingar þar sem glæsileg súkkulaðikaka með myndum af landsliðsfólkinu rann ljúflega niður.


Fremri röð f.v. Eva, Hekla Björt, Júlíana, Aníta Sól og Margrét. Aftari röð f.v. Rikharð Atli, Konráð og Eysteinn Máni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinKatrín og Ari Trausti: Nú er lag
Næsta greinKiriyama Family safnar fyrir plötuútgáfunni