„Ég er í sjokki!“

„Ég er í sjokki! Þessir strákar hætta aldrei að koma mér á óvart,“ sagði Erik Olson, þjálfari FSu, í samtali við sunnlenska.is eftir sigurleikinn gegn Hamri í gærkvöldi.

FSu vann 93-103 sigur í oddaleik og tryggði sér þar með sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

„Þetta sería er búin að vera mikil rússíbanareið. Við fengum skell í leik eitt en héldum sjó í leik tvö. Í kvöld byrjuðum við illa og lentum einhverjum tólf stigum undir en liðið sýndi ótrúlega hörku í kjölfarið og ég er svo stoltur af þeim,“ sagði Erik og hrósaði framlagi liðsheildarinnar.

„Við höfum talað um þetta í allan vetur og það er alveg fullkomið að þetta sýni sig svona vel í síðasta leiknum. Við fáum stráka af bekknum sem ná fráköstum, skora stig og eiga stoðsendingar. Þetta snýst ekki bara um þrjá stigahæstu leikmennina. Það er algengt í körfubolta að menn veiti þessum þremur stóru mestu athyglina en við erum með marga sterka stráka og við höfum talað um það ítrekað að þetta sé liðsíþrótt. Það er það besta við leikinn og ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir að fá að þjálfa þennan hóp.“

Erik sagði að stemmningin hjá liðinu hafi verið góð fyrir leikinn. „Það var fyndið. Við vorum yfirvegaðaðri fyrir þennan leik heldur en marga aðra leiki á tímabilinu. Það var einhver jákvæðni í loftinu og þegar ég sá reynsluboltana Ara og Hlyn mæta brosandi og rólega á svæðið þá einhvernveginn settu þeir tóninn og ungu strákarnir fylgdu á eftir. Við Kalli aðstoðarþjálfari vorum líka rólegir í allan dag. Okkur leið vel og við héldum að við værum að fara að vinna þennan leik. Í lok dags tókst okkur það, en það var ekki auðvelt. Hamar sótti að okkur í lokin en við náðum að halda aftur af þeim.“

En hvenær gerði FSu þjálfarinn sér ljóst að úrvalsdeildarsætið væri í höfn? „Ég er ekki enn búinn að átta mig á þessu,“ sagði Erik og hló. „Þetta er búin að vera rosalega mikil vinna hjá okkur í vetur og núna er þetta búið. Við erum komnir upp um deild og það er þvílíkt afrek fyrir þennan hóp. Collin [Pryor] skilaði frábærri vinnu hérna í kvöld, þetta var einn besti leikur hans í vetur og menn eru hérna með tárin í augunum. Ég er svo þakklátur fyrir að fá að vera hluti af þessu.“

En verður Erik Olson hluti af FSu liðinu á næsta tímabili? „Ég vona að ég fari upp með strákunum, við erum á góðri vegferð. Ég vona að liðið allt taki skrefið upp á við. Ég veit samt ekkert hvað tekur við. Nú njótum við kvöldsins og næstu daga og síðan tekur raunveruleikinn við. Þá sjáum við hvað við þurfum að gera næsta vetur.“

Fyrri greinVorlestin er á leiðinni til þín
Næsta greinNýjasta mynd Gríms fer til Cannes