Selfoss spilar um bronsið

Handboltalið Selfoss í 5. flokki karla spilar um bronsið í fyrramálið á Norden Cup í Svíþjóð eftir 18-19 tap gegn danska liðinu TIK Taastrup í undanúrslitum í kvöld.

Danirnir höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti, 6-9, en Selfoss minnkaði muninn í eitt mark fyrir hálfleik, 10-11.

Selfyssingar komust svo yfir í byrjun seinni hálfleiks sem var æsispennandi og munurinn aldrei meiri en eitt mark. Á lokamínútunni gat allt gerst, Bergsveinn Ásmundsson jafnaði 18-18 þegar 40 sekúndur voru eftir en Danirnir voru fljótir að komast yfir aftur. Selfoss fékk boltann aftur í hendurnar þegar 25 sekúndur voru eftir en náðu ekki góðu skoti í síðustu sókninni og danski markvörðurinn varði auðveldlega á lokasekúndunum.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 13 mörk, Haukur Páll Hallgrímsson og Bergsveinn Ásmundsson skoruðu 2 mörk og Sölvi Svavarsson 1.

Alexander Hrafnkelsson varði 11 skot og var með 37% markvörslu. Hann hélt Selfyssingum inni í leiknum á tímabili og átti margar frábærar vörslur á mikilvægum augnablikum.

Selfoss spilar um bronsið gegn sænska liðinu Tyresö kl. 9 í fyrramálið og verður leikurinn sendur beint út á netinu og má finna slóðina á Facebook síðu liðsins.

Fyrri greinEnn slær Styrmir metin
Næsta greinUppskeruhátíð ÍMÁ í kvöld