Selfoss í undanúrslit á Norden Cup

Handboltalið Selfoss í 5. flokki karla er heldur betur að gera góða hluti á Norden Cup í Gautaborg í Svíþjóð en liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum á mótinu í morgun.

Selfyssingar spiluðu þá æsispennandi leik gegn Eskiltuna Guif frá Svíþjóð. Svíarnir komust mest fjórum mörkum yfir í fyrri hálfleik, 3-7, en Selfoss náði að jafna fyrir hálfleik, 10-10. Seinni hálfleikur var æsispennandi, Selfoss var einu marki yfir við lok leiks en Svíarnir jöfnuðu, 19-19.

Ekki var gripið til framlengingar heldur spilað um gullmark og kom það í þriðju sókn Selfoss eftir algjöra háspennu. Lokatölur 20-19 og Selfoss mætir TIK Taastrup frá Danmörku í undanúrslitum kl. 19 í kvöld. Leikurinn verður sendur út beint á netinu og má finna tengil á hann á Facebooksíðu liðsins.

Í leiknum í morgun var Haukur Þrastarson markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, Þorsteinn Freyr Gunnarsson skoraði 5 og þeir Haukur Páll Hallgrímsson, Sölvi Svavarsson, Valdimar Jóhannsson og Bergsveinn Ásmundsson skoruðu allir 1 mark.

Alexander Hrafnkelsson varði 6 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Haukur Þrastar varði 2 skot og var með 50% markvörslu.

Áður en úrslitakeppnin hófst höfðu Selfyssingar farið ósigraðir upp úr sínum riðli en þeir unnu sænsku liðin Solefteå 26-17 og Norrköpings HK 21-13 áður en þeir lögðu norska liðið Frogner IL 20-13.

Fyrri greinSkarst á hendi við Frón
Næsta greinEva Lind valin Íþróttamaður Ölfuss