„Býst við að hálf Hella mæti“

„Það töluðu mörg lið við mig en mér fannst þetta mest spennandi kosturinn. Ég held að ég geti bætt mig sem leikmaður hérna og hjálpað ungu liði með reynslu minni.“

Þetta sagði landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir í samtali við sunnlenska.is eftir að hún skrifaði undir samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss í morgun og mun hún leika með liðinu í Pepsi-deildinni á komandi sumri.

„Þetta leggst mjög vel í mig, hér hefur verið unnið mjög gott uppbyggingarstarf og Gunni [Borgþórs] er að gera góða hluti. Það er líka fínt að vera hálfpartinn heima og geta búið á Hellu í sumar,“ sagði Dagný sem er nýbúin að ljúka keppnistímabilinu með liði Florida State University í bandaríska háskólaboltanum.

„Ég fer út aftur 4. janúar og þá tekur við tímabil sem er svipað undirbúningstímabilinu hérna heima. Þetta er leiðinlegri önnin, það er unnið í þreki og þjálfunin er einstaklingsmiðuð. Síðan eru æfingaleikir með Florida State en það er líka auðvelt að fara sjálf út á stuttbuxunum og æfa.

Íslenska landsliðið í knattspyrnu leikur nokkra landsleiki í vetur og fram á vorið og sá síðasti er í byrjun maí. „Hann er akkúrat í miðjum lokaprófum hjá mér en ég fæ að taka prófin fyrr þannig að ég reikna með að spila með landsliðinu í byrjun maí og svo byrjar Íslandsmótið strax eftir þann leik,“ segir Dagný.

Dagný er lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur lengi stefnt að því að komast erlendis í atvinnumennsku. „Planið er að fara út í janúar 2015. Til að byrja með langar mig að fara til Evrópu og draumurinn er að spila í Þýskalandi. En mig langar líka til að spila einhverntímann aftur í Bandaríkjunum.“

En fyrst er það Selfoss og Dagný segir að það sé verðugt verkefni framundan fyrir liðið. „Selfoss lenti í 6. sæti í deildinni síðasta sumar, sem var betri árangur en árið áður. Ég helt að það sé ekki spurning að stefna ennþá hærra. Það á eftir að ákveða öll markmið en ef ég þekki Gunna rétt þá setur hann markið hátt,“ segir Dagný og bætir við að hún búist við góðum stuðningi úr Rangárþingi.

„Fólk að heiman hefur verið duglegt að koma í bæinn á Valsleiki og þannig að ég ætla bara að búast við því að hálf Hella mæti hérna,“ segir Dagný hlæjandi að lokum.

Fyrri greinVélsleðaslys á Lyngdalsheiði
Næsta greinFimmtugasta útkall Eyvindar á árinu