Íbúar í hverfinu mjög ósáttir

Íbúar í nágrenni Sunnulækjarskóla ætla að safna undirskriftum til að mótmæla þeirri ákvörðun bæjarráðs Árborgar að heimila tjaldsvæði við Sunnulækjarskóla á meðan á fjölskylduhátíðinni Kótelettunni stendur.

Stefán Pétursson, íbúi í hverfinu, segir í samtali við sunnlenska.is að þeir nágrannar sem hann hafi rætt við séu mjög ósáttir við ákvörðunina. Þeir ætla að safna undirskriftum til að mótmæla henni og hefst söfnunin sennilega í kvöld eða á morgun.

„Þetta hefur ekkert verið kynnt fyrir íbúum og svo er þetta ekki skipulagt tjaldstæði og búast má við miklu ónæði. Þarna er t.d. ekkert rafmagn og engin salernisaðstaða og svo er þetta inn í miðju íbúðahverfi. Salernisaðstöðu er að sjálfsögðu hægt að koma upp, en við sem erum orðin fullorðin vitum hvernig hún er notuð, eða öllu heldur ekki notuð,“ sagði Stefán í samtali við sunnlenska.is.

„Ég vil taka það fram að við höfum ekkert á móti hátíðinni sem slíkri en hér er mikið af barnafólki og það má búast við mikilli umferð ökutækja. Okkur íbúum finnst þetta ekki passa hérna inn í hverfið. Auk þess er tjaldstæði við Gesthús, sem reikna má með að þeir sem eru með tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla notist við. Unga fólkið með tjöldin fer hingað, með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa.“

Tengdar fréttir:
Leyft að tjalda við Sunnulækjarskóla

Fyrri greinOlga Lísa skipuð skólameistari
Næsta greinGrýlupottahlaup 5 – Úrslit