Fréttaannáll 2011 – III

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir frá september til ársloka 2011.

September
Fangelsismál voru mikið rædd í haust þar sem heimamenn vildu sjá frekari uppbyggingu á Litla-Hrauni. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, sóknarprestur á Þingvöllum, var kjörinn vígslubiskup í Skálholti og dýrbítar voru á ferðinni í Rangárvallasýslu. Sláturúrgangur frá kjúklingasláturhúsi Reykjagarðs við Hellu flæddi niður Ytri-Rangá og nýja brúin yfir Hvítá var vígð formlega með borðaklippingu.

KFR kórónaði frábært sumar í 3. deild karla í knattspyrnu með því að tryggja sér sæti í 2. deild að ári og Selfyssingar innsigluðu sæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu að ári. Haldið var upp á 30 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurlands og fyrsti jarðvangurinn á Íslandi fékk staðfestingu á tilvist sinni. Fúsi Kristins hætti áratugalöngum verkstæðisrekstri á Selfossi.

Október
Tilkynnt var um lokun réttargeðdeildarinnar að Sogni í hagræðingarskyni og Hvergerðingar nötruðu vegna manngerðra jarðskjálfta Orkuveitunnar á Hellisheiði. Fjórir Litháar voru handteknir þar sem þeir meðhöndluðu 375 grömm af kókaíni í sumarbústað í Ölfusborgum. Dollarar fundust á víðavangi í Þorlákshöfn og Suðurstrandarvegur kláraðist.

Nóvember
Öllu starfsfólki Skálholtsskóla var sagt upp og í Skálholti var deilt um Þorláksbúð. Önnur búð vakti meiri gleði því Bónus opnaði nýja verslun á Selfossi og Sunnlendingar misstu sig þegar þeirri gömlu var lokað með afslætti. Bryndís Ólafsdóttir varð aftur sterkasta kona Íslands.

Ein umfangsmesta björgunaraðgerð seinni ára var á Fimmvörðuhálsi og Sólheimajökli þar sem leitað var að sænskum ferðamanni. Hann fannst látinn á jöklinum.

Hugmynd um byggingu miðaldakirkju í Skálholti var kynnt á Kirkjuþingi og skrifað var undir samning um tómatastóriðju á Hellisheiði. Ákveðið var að loka heilsugæslunni á Hellu í sparnaðarskyni en eftir aukafjárveitinu í desember var horfið frá ákvörðuninni

Desember
Bæjarstjórn Árborgar hafnaði tilboðum sem bárust í sorphirðu vegna meints galla á útboðinu. Það snjóaði. Sunnlenskir rithöfundar seldu vel í jólabókaflóðinu og Olga Bjarnadóttir var kosin Sunnlendingur ársins af lesendum Sunnlenska fréttablaðsins og sunnlenska.is.

Fréttaannáll janúar – apríl

Fréttaannáll maí – ágúst

Fyrri greinByggðu hús án leyfis
Næsta greinLeikskólagjald hækkar – en gjaldskráin ekki