Fréttaannáll 2011 – I

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir á fystu fjórum mánuðum ársins 2011.

Janúar
Fyrsti Sunnlendingur ársins kom í heiminn þegar 2 klukkustundir og 49 mínútur voru liðnar af nýja árinu. Staðfest var að lungnapest hefði komið upp í sauðfé í Mýrdalnum í fyrsta sinn og Orkustofnun veitti Selfossveitum leyfi til rannsókna á vatnasviði Ölfusár vegna mögulegrar virkjunar í ánni. Tilkynnt var um fækkun lögreglumanna á hverri vakt vegna niðurskurðar en þeir svartklæddu létu það ekki stoppa sig og upplýstu samdægurs vopnað rán sem var framið í verslun Samkaupa á Selfossi. Þjófurinn gekk í veg fyrir lögreglubíl á Eyrarbakka sama kvöld.

Þann 10. janúar lýsti lögreglan eftir Matthíasi Þórarinssyni sem þá hafði verið týndur í nokkrar vikur. Matthías er enn ófundinn. Selfyssingar fylgdust sérstaklega vel með sínum manni á Heimsmeistaramótinu í handbolta og íbúar Þykkvabæjar glöddust þegar þorpið komust aftur á kortið sem þéttbýlisstaður. Leitað var að þýskum ferðamanni við erfiðar aðstæður á Eyjafjallajökli. Hann fannst heill á húfi eftir tólf tíma leit. Meisam Rafiei, Umf. Selfoss, tryggði sér Norðurlandameistaratitilinn í taekwondo og staðfest var að Guðmundur Karl væri í landsliðsklassa.

Febrúar
Heimir Guðmundsson, húsasmiður í Þorlákshöfn, kvartaði ekki yfir verkefnaskorti og fleira gladdi Hafnarbúa því Þórsarar tryggðu sér sæti í Iceland Express deild karla í körfubolta. Skokkari réðist á tólf ára dreng í Hveragerði og skokkaði síðan á braut. Hann gaf sig fram eftir að lögreglan lýsti eftir honum. Sorpbrennslumál voru til skoðunar á Klaustri vegna mögulegrar díoxín-mengunarhættu og heimsfrægur arkitekt fékk úthlutað lóðum á Stokkseyri til að reisa veglegt hús m.a. fyrir listamenn.

Vatnsdæling við Hellisheiðarvirkjun olli smáskjálftum á Heiðinni og í Hveragerði hættu menn að sinna viðhaldi á Heilsustofnun NLFÍ. Umhverfisráðuneytið og sveitarstjórn Skaftárhrepps náðu samkomulagi um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs. Dæluskip var fengið til starfa í Landeyjahöfn en dælingin gekk brösuglega vegna veðurs og fleiri áfalla. Bæjaryfirvöld í Árborg höfðu áhyggjur af auknum fjölda glæpafrétta úr sveitarfélaginu.

Mars
Hópi starfsmanna var sagt upp á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, alls 38 manns, og tilkynnt að hótel yrði rekið í húsnæði stofnunarinnar yfir sumartímann. Hamarskonur tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í körfubolta en þetta var fyrsti stóri titill félagsins. Karlalið Hamars féll hinsvegar niður í 1. deild og Selfyssingar féllu líka úr N1 deild karla í handbolta. Sveitarstjórn Flóahrepps fór fram á það við forseta Alþingis að hann beiti sér fyrir því að þingmenn sem hafa sakað sveitarstjórnarmenn um að þiggja mútur, biðjist afsökunar og dragi ummælin til baka.

Urgur var í íbúum í hluta Rangárvallasýslu vegna breytinga á heilsugæsluþjónustu en bakvakt læknis færðist frá Hellu og Hvolsvelli og þurftu íbúar að sækja læknisþjónustu á Selfoss. Rangæingar kvörtuðu líka yfir því að Lindin næðist betur en RÚV enda forsvarmenn stöðvarinnar betur tengdir almættinu. Reynt verður að bæta úr því með því að byggja nýja kirkju og menningarhús á Hvolsvelli. Tómas Þórir Jónsson ók ruslinu úr Hrunamannahreppi til Reykjavíkur enda var það ódýrara en að aka því á Selfoss og bæjarstjórn Hveragerðisbæjar rétti af fjárhag bæjarins með því að selja eignarhluta sinn í Sunnlenskri orku ehf. til Rarik á tvær krónur.

Við sögðum líka frá því að N1 hefur látið framkvæma útreikninga sem benda til þess að repjuræktun sé arðbær og áætlanir liggja fyrir um að reisa lífdíselverksmiðju á Hvolsvelli. Sjúkradeildin á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi var sett í einangrun eftir að niðurgangspest kom þar upp. Tuttugu sjúklingar og nokkrir starfsmenn veiktust. Starfsemi hófst í Matvælasmiðjunni á Flúðum.

Íbúar í dreifbýli Ölfuss mótmæltu harðlega nýju póstnúmeri, 816 Þorlákshöfn. Þeir söfnuðu undirskriftum og fengu sínu framgengt síðar á árinu. Þeim sem söfnuðu undirskriftum á Selfossi og vildu áframhaldandi kennslu í Sandvíkurskóla varð ekki ágengt. Hagræðing í skólamálum á Selfossi mun vonandi skila bættum tölvukosti í Sunnulækjarskóla.

Stór sprunga opnaðist í Almannagjá og var hluta hennar lokað á meðan á viðgerð stóð og sama dag var annað vopnað rán framið í Samkaupum á Selfossi.

Apríl
Ný hárgreiðslustofa opnaði þann 1. apríl og þótti mörgum ótrúlegt að ekki væri um aprílgabb að ræða. Sveitarfélagið Árborg keypti Miðjuna á Selfossi í stað þess að borga hálfan milljarð króna í skaðabætur til fyrri eigenda. Marín Laufey Davíðsdóttir felldi alla andstæðinga sína og varð glímudrottning Íslands. Dæluskipið Skandia strandaði í Landeyjahöfn en Landeyingar glöddust hins vegar yfir árangri Helgu Rúnar Garðarsdóttur sem var valin Fegurðardrottning Suðurlands.

Sunnlendingar mótmæltu Icesave samningunum harðar en aðrir landsmenn og ákvörðun um að loka heilsugæslunni á Hellu í þrjá mánuði yfir sumartímann mætti harðri andstöðu í sveitarfélaginu. Sautján ára piltur lést í bílveltu á Landeyjavegi. Sigrún Óskarsdóttir fékk flest atkvæði í kjöri Skálholtsbiskups en kosningin var kærð og síðan ógilt þar sem tvö ógild atkvæði voru talin með.

Blómaþjófar á Porche jeppa skiluðu ránsfengnum eftir að vertinn á Hafinu sendi þeim skilaboð á Facebook. Þjófarnir lofuðu að gera þetta aldrei aftur. Ferðamenn á Þingvöllum komust ókeypis á klósettið um páskana.
TENGDAR FRÉTTIR:

Fyrri greinTómas Ellert: 15. Unglingalandsmót UMFÍ 2012 á Selfossi
Næsta greinSunnlenskar bækur söluhæstar