Mest lesnu fréttir ársins

Árið 2011 var viðburðaríkt á Suðurlandi en það var kannski ekki eldgos og stjórnmálavafstur sem vakti mesta athygli. Hér eru taldar upp mest lesnu fréttirnar á sunnlenska.is á árinu.

1. Helga Rún Ungfrú Suðurland
Keppnin um titilinn Fegurðardrottning Suðurlands nýtur alltaf mikillar athygli og mest lesna fréttin á árinu var um krýningu Helgu Rúnar Garðarsdóttir. Fleiri mikið lesnar fréttir tengdar keppninni voru kynningin á Helgu Rún, viðtal við hana eftir keppni og sömuleiðis viðtal við Guðrúnu Birnu Gísladóttur sem var kosin netstúlka sunnlenska.is.

2. Ber að ofan í íslenskri jökulá
Hollywood-leikarinn Jake Gyllenhaal kom til landsins á árinu til að taka upp sjónvarpsþáttinn Man vs. Wild. Gyllenhaal ku hafa rifið sig úr að ofan og vaðið yfir sunnlenska jökulá – en því miður fengum við ekki myndir af því uppátæki.

3. Dýrbítar drápu tugi lamba og kinda
Tveir boxerhundar sluppu frá eiganda sínum í Tjarnarbyggð í Árborg og léku sér að því að drepa fé hjá bónda í Eyrarbakkahreppi. Hundarnir drápu og særðu á fjórða tug lamba og kinda.

4. Nafnlaust bréf sent nágrönnum
Íbúar í hluta Hólahverfis á Selfossi fengu nafnlaust dreifibréf inn um bréfalúguna hjá sér í febrúar þar sem bent var á að dæmdur kynferðisafbrotamaður byggi í hverfinu.

5. Íslandsteppið slegið á milljón
Íslandsteppið, bútasaumsteppi eftir Jónínu Huldu Gunnlaugsdóttur á Selfossi, var slegið á eina milljón króna á uppboði á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi í byrjun ágúst.

6. Vandkvæði að fá fólk í vinnu
Það kom forráðamönnum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða á óvart hversu erfitt væri að fá fólk til vinnu í sumarbyrjun miðað við tölur um atvinnuleysi.

7. Ingólfsfjall sést ekki frá Selfossi
Askan var milli tannanna á Sunnlendingum – í orðsins fyllstu merkingu í upphafi Grímsvatnagoss. Á öðrum degi gossins lá þykkt öskumistur yfir Flóanum og á Selfossi sást ekki til Ingólfsfjalls.

8. Skilaboð til blómaþjófa á lúxusjeppa
Á föstudaginn langa renndu blómaþjófar á lúxusjeppa upp að dyrum veitingahússins Hafið bláa við Ölfusárósa og stálu þaðan sumarblómum úr blómakeri. Guðni á Hafinu sendi þjófunum skilaboð á Facebook og vakti kveðjan mikla athygli.

9. Tvö langveik börn fengu fjárstyrk
Fréttir af hjartahlýju sjúkraflutningamanna í Árnessýslu hafa flogið hátt en á aðfangadag styrktu þeir tvö langveik börn um 200 þúsund krónur sem var ágóði af dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

10. Hænsnabóndi með húmor
Sigurður Ingi Sigurðsson, hænsnabóndi í Hamarskoti í Flóahreppi, er fyndnasti maður Suðurlands 2011 en hann vann titilinn í keppni sem haldin var á 800 Bar á Selfossi í apríl.

Við þetta má svo bæta að mest skoðaða myndaalbúm ársins var myndasyrpa Gunnars Þórs Gunnarssonar fyrir sunnlenska.is á Selfossþorrablótinu í janúar.

Fyrri greinVel á annað þúsund manns heimsóttu skóginn
Næsta greinSleginn í höfuðið í Hvíta