Tvö langveik börn fengu fjárstyrk

Félag sjúkraflutningamanna í Árnessýslu afhenti tveimur barnafjölskyldum fjárstyrk í dag en upphæðin er ágóði af dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

Fjölskyldurnar fengu hvor um sig 200 þúsund króna styrk en þetta er í fyrsta sinn sem tvö börn eru styrkt af sjúkraflutningamönnunum. Upplagið af dagatalinu var aukið í 800 eintök og eins og venjulega var eftirspurnin meiri en framboðið. Auk þess lögðu fyrirtæki á Selfossi hönd á plóg með gjöfum og gjafabréfum; Íslandsbanki, Hársnyrtistofa Österby og hárgreiðslustofan Bylgjur og bartar auk Björgunarfélags Árborgar sem gaf flugeldapakka.

Sjúkraflutningamennirnir bönkuðu fyrst uppá hjá Rakel Sunnu Birgisdóttur og fjölskyldu hennar á Selfossi. Rakel Sunna fæddist þann 1. júní 2008. Við fæðingu var hún mjög vaxtarskert og fljótlega kom í ljós að hún væri með Citomegalovírus í heilanum sem orsakar marga kvilla.

Þrátt fyrir lyfjagjöf á fyrstu dögum ævinnar hefur veiran haft margvísleg áhrif á heilsu Rakelar Sunnu. Hún er t.d. með CP-heilalömun, verulega varanlega heyrnarskerðingu á öðru eyra, rýrnun á augnbotnum svo ekki er vitað um sjón hennar, hún er fjölfötluð, hreyfihömluð, með verulega skaðað miðtaugakerfi og flogaveik.

Þrátt fyrir annmarka sína er Rakel Sunna mjög kát og glöð og hefur sterkan persónuleika og veit hvað hún vill. Rakel er mikil félagsvera og hefur mjög gaman af því að hlusta á tónlist og láta syngja fyrir sig.

Eftir heimsóknina til Rakelar héldu sjúkraflutningamennirnir til Arons Freys Jónssonar sem er 4 ára strákur á Selfossi. Aron Freyr er fæddur þann 3. júlí 2007. Hann fæddist þremur mánuðum fyrir tímann og var aðeins fjórar merkur. Aron Freyr var í fjóra mánuði á vökudeild þar sem hann glímdi við ýmis veikindi, m.a. erfið lungnavandamál. Sumarið 2008 greindist hann með CP.

Í dag er Aron kominn í leikskóla þar sem hann fær fullan stuðning vegna fötlunarinnar. Hann er stirður í fótum og mjöðmum en einnig er vinstri hlið líkamans slakari en hægri hliðin. Frá greiningu hefur hann þurft að nota allskyns hjálpartæki en í hans daglega lífi. Aron Freyr fer vikulega í sjúkraþjálfun í Reykjavík og einnig í iðjuþjálfun á sama stað en í vetur hefur sjúkraþjálfarinn hans komið reglulega í leikskólann þar sem hann fær þjálfun í sínu daglega umhverfi.

Aron Freyr er mikill gleðigjafi og bræðir alla í kringum sig með húmor og skemmtilegum frösum. Hann er athugull og næmur á umhverfi sitt. Undanfarið hefur hann velt fyrir sér atriðum sem tengjast fötluninni, t.d. af hverju yngri börn en hann kunna að ganga. Þá er hann fljótur að finna eitthvað sem hann er betri í.

Bæði Rakel Sunna og Aron Freyr greindust með CP sem er algengasta tegund hreyfihömlunar meðal barna. Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, sagði í samtali við sunnlenska.is að fötlunin sé margbreytileg og einkenni mismunandi. „Sumir með CP hreyfa sig og þroskast næstum eðlilega meðan aðrir þarfnast aðstoðar við nánast allar athafnir daglegs lífs. Fötluninni geta fylgt alvarlegar viðbótarfallanir, t.d. flogaveiki og greindarskerðing,“ sagði Stefán.

Stefán segir að þessi dagur sé alltaf sérstakur fyrir sjúkraflutningamennina. „Þetta eru alveg frábærar heimsóknir og þær gefa okkur mikið. Okkur finnst það vera samfélagsleg skylda okkar að leggja lóð á vogarskálarnar hjá þessum börnum og það er ánægjulegt að finna hvað fyrirtæki í bænum eru boðin og búin til að leggja hönd á plóg,“ sagði Stefán að lokum.

sjukraflutningamenn2011rakelsunna_gk_419659343.jpg
Sjúkraflutningamennirnir ásamt Rakel Sunnu, Ingu Birnu Jónsdóttur móður hennar og systrunum Elísabetu Erlu 10 ára og Freyju Margréti 5 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinGlórulítið að vera á ferðinni
Næsta greinHjálparsveitin aðstoðaði jólasveinana