Tilboðum í sorphirðu hafnað

Meirihluti bæjarráðs Árborgar samþykkti í morgun að hafna þeim tilboðum sem bárust í útboði um sorphirðu í sveitarfélaginu næstu fjögur árin.

Tilboð bárust í verkið frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu og átti Gámaþjónustan hagstæðasta tilboðið.

Í tillögu D-listans varðandi höfnunina segir að færa megi rök fyrir því að gallar kunni að hafa verið á framkvæmd útboðsins. Sveitarfélagið mun því semja við Íslenska gámafélagið um framlengingu núverandi samnings til sex mánaða og á þeim tíma verður unnið að nýju útboði.

Sjálfstæðismenn benda á að kostnaður við lægsta tilboð er yfir 13 milljón krónum hærri fyrir árið 2012 en kostnaður við sorphirðu er árið 2011. Þá er útboðsupphæð fyrir fimm ára tímabil miðuð við núverandi sorpmagn en margt bendir til að það kunni að aukast á tímabilinu með tilheyrandi viðbótarkostnaði.

Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-listans í bæjarráði greiddi atkvæði gegn tillögunni og lagði fram bókun ásamt Helga S. Haraldssyni og Þórdíst Eygló Sigurðardóttur, áheyrnarfulltrúum B- og V-lista.

Í bókuninni segja þau þessa ákvörðun verulega undarlega þar sem hún sé byggð á vangaveltum um hugsanlega galla og aukið sorpmagn í framtíðinni. Settar séu fram tölur um hærri kostnað á árinu 2012 en ekkert getið um sparnað upp á 25 milljónir á samningstímanum.

Minnihlutinn lagði því fram tillögu um að gengið yrði til samninga við Gámaþjónustuna. Tilboð Gámaþjónustunnar hafi verið mun hagstæðara fyrir sveitarfélagið auk þess sem fyrirtækið hafi skorað hærra í einkunnagjöf sem fagaðilar unnu vegna tilboðanna. Verkfræðistofan Efla og Verkfræðistofa Suðurlands gerðu útboðsgögnin og sáu um útboðið í samræmi við vilja bæjarstjórnar.

Þessi tillaga minnihlutans var felld og létu Eggert og Helgi þá bóka óánægju sína og sögðu algjörlega óskiljanlegt að meirihluti D-lista skuli fella tillöguna.

„Ljóst er að annar tilboðsgjafanna hefur sent frá sér tilmæli um ógildingu útboðsins, sem við nánari skoðun standast ekki sem rök fyrir ógildingu þess. […] Hefur umsjónaraðili útboðsins hjá EFLU sagt að útboðsgögnin standist alla lagalega skoðun og í þeim felist á engan hátt mismunun gagnvart tilboðsgjöfum.
[…] Hvorugur tilboðsgjafa gerði athugasemdir þegar tilboð voru opnuð og báðir aðilar skiluðu inn þeim gögnum sem beðið var um án athugasemda eftir að tilboð voru opnuð. Tilboðsgjafar sátu við sama borð allt útboðsferlið.
Leitað hefur verið álits bæjarlögmanns á – Tilmælum um ógildingu útboðs – frá öðrum tilboðsgjafanum og getur bæjarlögmaður ekki gefið ótvíræð svör við því hvort gallar hafi verið á útboðinu eða ekki. Hvergi er heldur til ótvíræður úrskurður í sambærilegum málum,” segir m.a. í bókun Eggerts og Helga og benda þeir á að meginreglan sé sú að bjóðendur geti ekki breytt grundvallarþáttum í tilboðum sínum eftir að þau hafa verið opnuð, enda séu slíkar breytingar almennt til þess fallnar að raska samkeppni og fela í sér hættu á mismunun.

Meirihlutinn svaraði bókun Eggerts og Helga með því að álit bæjarlögmanns staðfesti að galli kunni að vera á útboðinu.

„Það er ábyrgðarhluti að semja um sorphirðu til fimm ára og binda þannig sveitarfélagið. […] Sá reiknaði ávinningur sem fulltrúar S- og B-lista nefna er ekki fyrir hendi, þvert á móti er ýmislegt sem bendir til annars,“ segir m.a. í bókun D-listans.

Fyrri greinÆvintýri, skemmtisögur og átthagafræði
Næsta greinEldhestar fá umhverfisverðlaun