Fannst látinn á Sólheimajökli

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fundu rétt fyrir hádegi sænskan ferðamann sem leitað hefur verið að á Sólheimajökl. Var hann látinn þegar björgunarlið kom að honum í um 600 m hæð í jöklinum.

Yfir 300 björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni í morgun, þar af voru um um 80 manns á jöklinum sjálfum. Leitin síðustu daga hefur verið afar umfangsmikil og hafa um 500 manns frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg komið að henni frá því hún hófst á miðvikudagskvöld. Aðstæður hafa oft á tíðum verið afar erfiðar og krefjandi.

Íbúar og fyrirtæki á svæðinu hafa stutt vel við bakið á leitarfólki. Kvenfélögin Fjallkonan, Eygló og Freyja opnuðu miðstöð í skólahúsinu á Skógum þar sem björgunarlið gat hvílt sig og fengið mat, allan sólarhringinn. Segja konurnar það vera þakkir til björgunarsveita fyrir aðstoð sem þær veittu íbúum svæðisins í eldgosunum. Einnig hafa hótel og gistihús opnað dyr sínar fyrir leitarfólki, fyrirtæki gefið mat og Rauði krossin á Hvolsvelli sá um flutning aðfanga á svæðið.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma á framfæri þakklæti til allra sem að komu.

Fyrri greinRakel og Helga Norðurlandameistarar
Næsta greinFjölmenni í afmæli FBSH