Sogni verður lokað

Réttargeðdeildinni að Sogni verður lokað þann 1. mars nk. og starfsemi hennar færð á Kleppspítala í Reykjavík. Starfsmönnum var tilkynnt þetta í morgun.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga mótmæla harðlega ákvörðuninni. Þau segja hana illskiljanlega því ekki hafi verið sýnt fram á hagræði þess að flytja starfsemina á höfuðborgarsvæðið og sparnaður i meira lagi vafasamur auk þess sem að fyrir liggur að leggja þurfi stofnkostnað til að tryggja deildinni þá umgjörð sem þarf á nýjum stað.

„Samtökin mótmæla tilflutningi starfa af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem er í hróplegri mótsögn við yfirlýsta byggðastefnu stjórnvalda. Á réttargeðdeildinni starfa nú um 30 starfsmenn með búsetu i Árborg, Hveragerði, Ölfusi og Flóahreppi og því um verulegt högg að ræða fyrir atvinnulíf þess svæðis,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Réttargeðdeildin var stofnuð árið 1992 og er ætluð fyrir sjö sjúklinga. Hún var rekin af Heilbrigðisstofnun Suðurlands þangað til í apríl 2009 er Landspítalinn tók við rekstrinum.

Fyrri greinKostnaður lækkar um tvo milljarða
Næsta grein„Ólíðandi að framkalla jarðskjálfta“