Kristján kjörinn vígslubiskup

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, sóknarprestur á Þingvöllum, hefur verið kjörinn vígslubiskup í Skálholti.

Kristján Valur hlaut flest atkvæði í kjörinu en 19 atkvæðum munaði á honum og sr. Sigrúnu Óskarsdóttur. Kjörfundi lauk þann 26. ágúst síðastliðinn og atkvæði voru talin í dag.

Á kjörskrá voru 149 manns og greidd voru 142 atkvæði.

Atkvæði féllu þannig:
Sr. Kristján Valur Ingólfsson fékk 80 atkvæði
Sr. Sigrún Óskarsdóttir fékk 61 atkvæði
Einn seðill var auður.

Að lokinni talningu sagði sr. Kristján Valur: „Ég er bæði glaður og þakklátur. Þetta er dýrmætur stuðningur af því að hann gefur fyrirheit um stuðning eftir að alvaran tekur við. Ég hef góða reynslu af því að búa í Skálholti. Þetta eru umróts tímar og svona verkefni eru erfiðust á slíkum tímum. Ég vona að ég hafi stuðning áfram til að sinna þeim verkefnum sem mér eru falin.“

Sr. Sigrún Óskarsdóttir sagðist óska sr. Kristjáni Vali til hamingju og biðja honum blessunar Guðs í mikilvægri þjónustu. „Mig langar að fá að þakka stuðningsfólkinu mínu, vinum og fjölskyldu fyrir ómetanlegt traust, stuðning og vináttu sem mér hefur verið sýnd.“

Sr. Kristján Valur Ingólfsson er fæddur árið 1947. Hann var vígður árið 1974 sem sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli. Hann hefur einnig þjónað sem farprestur Þjóðkirkjunnar í Ísafjarðarprestakalli, sóknarprestur í Grenjaðarstaðarprestakalli og rektor Skálholtsskóla. Hann var lektor í helgisiðafræði við guðfræðideild Háskóla Íslands frá 2000-2008. Sr. Kristján Valur gegnir nú starfi verkefnisstjóra helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu og þjónar sem sóknarprestur á Þingvöllum.

Kærufrestur er sjö dagar. Komi ekki fram kæra verður biskupsvígsla í Skálholti sunnudaginn 18. september næstkomandi.

Fyrri greinFrábærar aðstæður í Brúarhlaupi
Næsta greinSelfoss vantar eitt stig