Sumarbústaðaþjófar reyndu að stinga af

Kl. 4:51 í morgun fékk lögreglan á Selfossi tilkynningu um yfirstandandi innbrot í sumarbústað í Úthlíð. Lögreglan mætti þjófunum og hófst þá eltingaleikur langleiðina til Reykjavíkur.

Á leiðinni í Úthlíð mætti lögreglan meintum gerendum á bíl en þeir sinntu ekki stöðvunarmerkjum og reyndu að komast undan. Þeim var veitt eftirför og lokanir undirbúnar á áætlaðri leið þeirra til Selfoss, en ökumaður bílsins fór hinsvegar af Biskupstungnabraut um Þingvallaveg, Grafningsveg og Nesjavallaleið.

Þá voru settar upp lokanir á Nesjavallaleið, skammt vestan Dyrfjalla, en hann virti þær ekki og akstur hans stöðvaðist ekki fyrr en komið var niður undir Reykjavík.

Þar lenti hann út af vegi þegar hann var að reyna að koma sér framhjá lokun sem lögreglan þar hafði sett upp. Engin slasaðist í útafakstrinum og litlar skemmdir munu vera á bílnum. Í bílnum reyndust vera tveir aðilar, með ætlað þýfi, sem nú verða fluttir í fangageymslur á Selfossi vegna rannsóknar málsins.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi var um að ræða tvo karlmenn. Við aðgerðirnar naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Fyrri greinÁætlun Þróttara gekk upp
Næsta greinElfar Guðni gefur málverk í Sólbakka-lottó