Tíu laxar í opnunni

Tíu laxar komu á land úr Ytri-Rangá þegar hún opnaði sl. föstudag. M.a. komu þrír laxar upp af Rangárflúðunum og þykir það gott á fyrsta degi.

Ægissíðufoss (ásamt Klöpp) var að venju sterkur og einnig Djúpós. Einnig voru menn að setja í nokkra og missa og jafnframt komu tíu silungar upp – sá stærsti losaði 10 pund. Eins og oftast áður þurfti að hafa dálítið fyrir veiddum löxum, en engu aðsíður var ekki neinn æsingur á bakkanum, menn nutu þess einfaldlega að vera við veiðar í uppáhaldsánni sinni.

Verið er að byggja við veiðihúsið í Ytri-Rangá og miðar verkinu vel áfram. Veiðimenn og konur munu spássera þar um eftir 10. júlí þegar húsið opnar og geta þá notið frábærs útsýnis yfir Rangárflúðirnar.

Fyrri greinFlottir Selfyssingar á Shellmóti
Næsta greinSamstarfið gengur vel