Starfsemi hafin í Matvælasmiðjunni

Fimmtán aðilar leigja nú aðstöðu hjá Matvælasmiðjunni á Flúðum. Reksturinn er kominn á fullt en formleg opnun hefur tafist af óviðráðanlegum orsökum.

Matvælasmiðjan er rekin í samstarfi Matís ohf., Háskólafélags Suðurlands, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands og sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu.

Vilberg Tryggvason, starfsstjóri Matvælasmiðjunnar, segir að aðilarnir sem leigi aðstöðuna nú séu aðallega að vinna vöruþróunarvinnu og að vinna betur úr hugmyndum sem þeir hafa verið lengi með en hvorki haft fjármagn né aðstæður að vinna betur. Þá gefst fólki líka kostur á að leigja aðstöðu á meðan það tekur fyrstu skrefin í rekstri sínum.

Nánast öll tæki eru komin í hús en Vilberg segir smá tafir hafi orðið vegna strands Goðafoss sem flutti búnað til rekstursins. Þessar tafir hafi þó haft lítil áhrif á reksturinn því mikið sé að gera nú þegar og búast megi við að starfsemin ná hámarki þegar grænmeti verður tekið upp í haust.

Um helgina verður haldið námskeið hjá Matvælasmiðjunni í súrsun, sultun og niðursuðu grænmetis og ávaxta. Farið verður yfir öll aðalatriði varðandi vinnslu og meðhöndlun vörunnar, allt þar til hún er komin á borð neytenda.

Vilberg gefur upplýsingar í síma 858-5133 og í gegnum netfangið vilberg@matis.is.

Fyrri greinMargrét Ingibjörg 102 ára í dag
Næsta greinÁrsframleiðslan yrði um 8.000 tonn