Selur hlut sinn á 2 krónur

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur samþykkt að selja eignarhluta sinn í Sunnlenskri orku ehf. til Rarik á tvær krónur.

Fulltrúum bæjarfélagsins í stjórn Eignarhaldsfélags Hveragerðis og Ölfuss hefur verið falið að ganga frá sölunni enda muni sveitarfélagið Ölfus samþykkja slíkt hið sama.

Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðis, er hér um að ræða uppgjör á þessari fjárfestingu sem upphaflega snérist um að virkja í Grændal. Nú sé orðið ljóst að þar verði ekki virkjað í bráð og því hafi þótt eðlilegt að sveitarfélögin seldu sinn hlut sem var upp á 10%.

Að sögn Aldísar afskrifar Hveragerðisbær um 5 milljóna króna stofnframlag sem hafði verið lagt til félagsins. Hún sagðist telja hæpið að það yrði virkjað í Grændal nema vísindalegar forsendur breyttust. Ljóst væri þó að þar væru til verðmætar rannsóknarniðurstöður sem gætu nýst síðar.

Fyrri greinAuglýst eftir skólastjóra
Næsta greinUnnið að hlutafjáraukningu meðal eigenda