Eldur kviknaði út frá kerti

Ekki mátti á tæpara standa þegar eldur kom upp í íbúð á efri hæð í fjölbýlishúsi við Fossheiði 60 á Selfossi á níunda tímanum í morgun.

Neyðarlínan fékk boð frá nágranna um reykjarlykt og að reykskynjari væri í gangi inni í íbúðinni. Eldur reyndist vera í eldhúsinnréttingu og hafði kviknað út frá kerti. Íbúðin var mannlaus.

Lögreglumaður sem var fyrstur á vettvang braut sér leið inn í íbúðina og slökkti eldinn með handslökkvitæki. Frímann Baldursson, lögregluvarðstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að ekki hefði mátt á tæpara standa að eldurinn næði að breiðast út í íbúðinni. Töluverður reykur var í íbúðinni og stigagangi og sáu slökkviliðsmenn um að reykræsta.

Fyrri greinSkjálftar undir jökli
Næsta greinVarað við vindkviðum undir Eyjafjöllum