Fréttaannáll 2010 – III

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir í október, nóvember og desember árið 2010.

Október
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps fór að fordæmi Árborgara og sagði upp samningi við Intrum. KFR og ÍBV tóku höndum saman við uppeldi knattspyrnumanna. Í fjárlögum ársins 2011 var gert ráð fyrir 16% niðurskurði á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Selurinn í Ölfusá komst aftur í fréttirnar en nú var hann dauður. Þann 10. október var 17°C hiti á Eyrarbakka en hitinn var meiri í mótmælendum á Selfossi daginn eftir sem lokuðu Ölfusárbrú. Hestaútflutningur hófst aftur eftir hestapestina en hún hrjáði ekki hestamanninn Loga Ólafsson sem tók kampakátur við knattspyrnuliði Selfoss eftir að Gumma Ben var sagt upp.

Meirihlutinn í Rangárþingi ytra kom með óvænt útspil á hreppsnefndarfundi og bæjarstjórn Hveragerðis vildi kaupa hitaveitu bæjarins aftur. Fimmtán Sunnlendingar buðu sig fram á Stjórnlagaþing og gríðarlega fámennur borgarafundur var haldinn á Hvolsvelli vegna kosninganna. Landsvirkjun samdi við Ístak um byggingu Búðarhálsvirkjunar. Mýsnar í Sandvíkurhreppnum urðu landsfrægar og lið Selfoss varð í 8. sæti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum. 4000 jólastjörnur eyðilögðust í eldsvoða í Hveragerði.

Nóvember
Sunnlendingar fjölmenntu á Austurvöll þann 11. nóvember og afhentu undirskriftalista. Lax-á keypti veiðiréttinn í Stóru-Laxá á meðan Grímsnesingum tókst ekki að selja réttinn í Soginu. Siglingastofnun kynnti hugmyndir um færslu ósa Markarfljóts og hefst sú aðgerð fljótlega eftir áramót. Heimamenn á suður- og vesturlandi keyptu Límtré-Vírnet af Landsbankanum. Enginn Sunnlendingur komst á Stjórnlagaþing.

Desember
Umferð var hleypt á nýju Hvítárbrúna og eftir það áttu Tungnamenn greiða leið í Ríkið – og Hreppamenn í bankann. Niðurskurður á Heilsustofnun NLFÍ veldur því að segja þarf 20 starfsmönnum upp. Risastórt geitungabú fannst í bílskúrsþaki við Rauðholt á Selfossi. Í næsta húsi var Gunnar Egilsson alinn upp en hann komst í annað skipti á Suðurpólinn. Vopnað rán var framið á Selfossi en ræningjarnir voru gómaðir samdægurs.

Framkvæmdastjórn Sólheima ákvað að hætta rekstri en bráðabirgðasamningur var gerður í síðustu viku ársins. Vegtollar vegna vegaframkvæmda voru kynntir og mótmælt jafnharðan. Þann 17. desember var snarvitlaust veður á Suðurlandi og allt lauslegt fauk á Selfossi. Sveitarfélagið Árborg skoðar að hætta í Skólaskrifstofu Suðurlands og sömuleiðis að hætta að borga í Strætó. Sunnlendingum fækkar annað árið í röð.

FRÉTTAANNÁLL I / APRÍL-JÚNÍ
FRÉTTAANNÁLL II / JÚLÍ-SEPTEMBER

MEST LESNU FRÉTTIRNAR 2010

Fyrri greinFréttaannáll 2010 – II
Næsta greinDagtal HSK/Selfoss komið út