Fimm sunnlensk svæði á rauðum lista

Brýnt er að grípa til aðgerða til að sporna gegn átroðningi við Gullfoss og Geysi að því er kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæði.

Þau svæði á Suðurlandi sem lenda á rauðum lista, þar sem tafarlausar aðgerðir eru taldar nauðsynlegar, eru Dyrhólaey, Friðland að Fjallabaki, Gullfoss, Geysir og Hveravellir.

Skýrslan var birt á vef Umhverfisstofnunar nú í morgun. Í tengslum við hana er nú hafinn fundur á Grand hóteli í Reykjavík þar sem fjallað er um innihald skýrslunnar og viðbrögð við niðurstöðum hennar.

Utanvegaakstur tíður að Fjallabaki
Um Friðland að Fjallabaki segir m.a. að ágangur ferðamanna hafi verið stigvaxandi og minnt er á að þegar árið 2003 hafi þolmörkum svæðisins að sumarlagi verið náð. Utanvegaakstur sé þar tíður en lítið viðhald vega virðist hvetja til aksturs utan vega. Engin verndaráætlun sé til og ferðaþjónustuaðilar virðist taka sér sjálfsvald í fjölgun mannvirkja í friðlandinu.

Lengi hefur legið fyrir að ástand Geysissvæðisins er slæmt og hefur lítið þokast í úrbótum undanfarin ár. Í skýrslunni segir að aðkoma að svæðinu sé slæm, mikið af rusli og slæm umgengni einkenni svæðið. Stígar, skilti og kaðlar séu í slæmu ástandi og fólk gangi „stjórnlaust“ um stóran hluta svæðisins. Sápa hafi oft verið borin í hverina, síðast af landeiganda árið 2009. Fólk hlaði vörður á svæðinu og einhverjir hafi ritað nafn sitt með steinum í hlíð á svæðinu.

Ferðamenn sækja út fyrir gönguleiðir við Gullfoss
Í skýrslunni segir að svæðið í kringum Gullfoss hafi látið á sjá. Mörg mannvirki séu slitin og gróðurþekja víða rofin. Ferðamenn virðist sækja út fyrir gönguleiðir og stytta sér leiðir upp og niður brekkur. Mikið af hliðarstígum hafi myndast frá malarstíg á neðra svæði þar sem ferðamenn taki sveig út af stígnum til að forðast vatnsúða. Gera þurfi úrbætur í öryggismálum við fossbrún.

Dyrhólaey sé í eðli sínu viðkvæmt svæði og nauðsynlegt sé að ná utan um umferð ferðamanna og stýra henni betur. Lítið sé um eiginlega göngustíga á svæðinu og sama sem engin stýring ferðamanna.

Bent er á skýrslunni að aðkoma Hveravöllum sé ekki góð, öryggismálum sé ábótavant og verndaráætlun sé ekki til. Mjög mikið álag sé á Hveravallasvæðinu og víða liggi það undir skemmdum. Fólk reyni að komast sem næst hverunum og gangi stjórnlaust um allt hverasvæðið.

Hægt er að lesa skýrsluna hér.

Fyrri grein„Taflan lýgur ekki“
Næsta greinKeyrir hún austur á nýjum iQ?