Hestaútflutningurinn hafinn

Þriðja sendingin af hestum fór af stað erlendis í lok september eftir að salan stöðvaðist í kjölfar hestapestar í sumar.

Sendir hafa verið hátt í 90 hestar til Liege í Belgíu þaðan sem þeim er dreift um Evrópu og síðari hluta október hefst flug til Norðurlanda með stærri vélum sem taka 80 hesta hver.

Fyrirtækið Gunnar Arnarson ehf., sem rekið er af hjónunum Kristbjörgu Eyvindsdóttur og Gunnari Arnarsyni á Grænhól í Ölfusi, hefur sent rúman þriðjung þessara hesta. Fyrirtæki þeirra er umsvifamest hestaútflytjenda á landinu og á síðasta ári sendi það um helming þeirra hesta sem fóru til útflutnings.

Til að tryggja að hestar séu ekki með einkenni hestapestarinnar eru þeir tvískoðaðir af dýralækni en eitthvað hefur borið á því að veikinnar verði enn vart í stóðmerum og folöldum. Gunnar segir hestamarkaðinn enn vera að vakna og að nokkurn tíma muni taka að koma honum í gang. Það verði að teljast gott ef 60-70% af veltu síðasta árs náist en þá seldust tæplega 1600 hross.

Fyrri greinGróflega gengið á hlut landsbyggðarinnar
Næsta greinUmfangsmikil gatnagerð í Hveragerði