Herjólfur getur ekki siglt í Landeyjahöfn

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur getur ekki lengur siglt til Landeyjarhafnar, að mati Ívars Gunnlaugssonar skipstjóra.

Höfnin er orðin of grunn vegna framburðar á sandi og gosefnum, sem berst inn í höfnina.

Í síðustu ferð í gær, kenndi skipið grunns bæði á innleið og útleið og dró heldur úr ferð þess í annað skiptið.

Ferð Herjólfs, sem fara átti frá Vestmannaeyjum til Landleyjarhafnar klukkan hálf átta í morgun, var því frestað um óákveðinn tíma, jafnvel einhverja daga og er verið að kalla saman fulltrúa Eimskips, sem sér um reksturinn, Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar til að fjalla um málið.

Sanddæluskipið, sem dælt hefur úr höfninni til skamms tíma, er nú komið í verkefni vestur á fjörðum. Það kann þvi að vera lausnin að hefja siglingar til Þorlákshafnar á meðan þess er beðið, en eftir því sem Fréttastofan kemst næst er ekki búið að semja við hafnaryfirvöld þar, um að nota höfnina sem varahöfn fyrir Herjólf á fastalandinu.

Vísir greindi frá þessu.

Fyrri greinBílvelta á Eyrarbakkavegi
Næsta greinGuðmundur sýnir í bókasafninu