Þúsund manns fögnuðu Herjólfi

Rúmlega þúsund manns tóku á móti Herjólfi þegar hann lagðist í fyrsta sinn formlega að bryggju í Landeyjahöfn síðdegis í dag.

Um borð voru nokkur hundruð Eyjamenn og var stemmningin góð um borð, og sömuleiðis á hafnarbakkanum. Boðið var upp á veitingar í landi meðan fólkið beið og einnig voru nikkur þandar.

Herjólfur lagðist að bryggjunni laust eftir klukkan 16:30 og þegar skipið var opnað og Eyjamenn gengu í land klöppuðu Rangæingar í landi.

Kristján Möller klippti á borða og vígði höfnina og síðan blessaði sr. Halldór Gunnarsson í Holti mannvirkið. Meðal þeirra sem tóku til máls var Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra. „Landeyjahöfn er bylting sem styrkir gamalgróin bönd Vestmannaeyinga og Rangæinga,“ sagði Ísólfur Gylfi.

Fyrri greinGunnsteinn ráðinn í Rangárþingi ytra
Næsta greinSkutlast í og úr Landeyjahöfn