Fundu gíg á hafsbotni undan Markarfljóti

Snemma í sumar fundu starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar gíg á hafsbotninum undan ósum Markarfljóts með því að beita lágtíðnidýptarmæli.

Með lágtíðnidýptarmæli er unnt að greina setlög nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn og afla þannig upplýsinga um afstöðu undirliggjandi setlaga. Tækið er í rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni sem sigldi m.a. eftir nokkrum línum á grunnsævi undan ósum Markarfljóts til að kanna mögulega hlaupfarvegi vegna nýafstaðins hlaups tengdu gosinu í Eyjafjallajökli.

Engin slík merki fundust en hins vegar komu ýmis önnur áhugaverð fyrirbæri í ljós, m.a. hringlaga gígur á botninum þar sem heitir Sandahraun á sjókortum. Gígurinn er liðlega 1 kílómeter í þvermál og rís um 45 metra upp frá umhverfi sínu þar sem grynnst er.

Einnig var kortlagt í utanverðu Skaftár- og Skeiðarárdjúpi, og í landgrunnshlíðinni suður af þeim, niður á 1.000–1.300 metra dýpi. Í Skaftárdjúpi eru áberandi jökulgarðar eftir jökla ísaldar. Það kom einnig í ljós með fjölgeislamælingum að kóralsvæði í mynni Skeiðarárdjúps er mun stærra en áður var talið.

Fyrri greinGosáhrifin að dvína
Næsta greinDohlsten, Guessan og Yao Yao í raðir Selfoss