Mætti ekki á íbúafund vegna dómsmáls

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, mætti ekki á opinn íbúafund í Flóahreppi sl. laugardag þar sem sveitarfélagið hefur stefnt henni vegna synjunar á staðfestingu aðalskipulags hreppsins.

Gaulverjar ehf. og Náttúruverndarsamtök Suðurlands boðuðu til fundarins þar sem ráðherra var auglýstur sem einn frummælenda. Á fundinum var fjallað um umhverfis- og skipulagsmál, öflun neysluvatns í hreppnum og umhverfisvernd.

Ráðherra flutti fundinum kveðju sína þar sem sagði m.a.: „Í ljósi þess dómsmáls sem hefur verið þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur um lögmæti úrskurðar míns er varða skipulagsmál Flóahrepps auk þess sem hugsanlegt er að ég þurfi að koma að fleiri embættisfærslum er varða þau mál sem eru til umræðu á fundinum tel ég rétt að afþakka [fundarboðið] … Ég tel afar mikilvægt að íbúar Flóahrepps leiði þessi mál til lykta án aðkomu minnar sem umhverfisráðherra og að á fundinum fari fram uppbyggileg og gagnleg umræða um umhverfismál í Flóahreppi.”

Fyrri greinLíkur á nálgunarbanni
Næsta greinTólf innbrot í sumarbústaði