Sjúkraflutningamenn áttu fótum sínum fjör að launa

Litlu mátti muna að illa færi þegar fólksbíll ók aftaná sjúkrabíl í Svínahrauni nú síðdegis. Svartaþoka er á Heiðinni.

Tilkynnt var um árekstur í Svínahrauni síðdegis þar sem fólksbíll og sendibíll höfðu lent í lítilsháttar árekstri. Lögregla og sjúkralið fóru á vettvang og þegar sjúkraflutningamennirnir voru að taka sjúkrabörur aftan úr bíl sínum komu jeppi og fólksbíll aðvífandi. Jeppinn náði að sveigja frá en fólksbíllinn lenti á jeppanum, kastaðist á víravegrið og þaðan á sjúkrabílinn.

„Við stóðum fyrir aftan sjúkrabílinn þegar við heyrðum bremsuvæl og litum við. Þegar við sáum fólksbílinn koma stukkum við frá,“ sagði Þorsteinn Hoffritz, sjúkraflutningamaður í samtali við sunnlenska.is. Glerbrotum og braki rigndi yfir Þorstein og félaga hans en ljóst er að ekki mátti muna miklu að illa færi.

Einn var í fólksbílnum og fjórir í jeppanum og sluppu allir ómeiddir. Fólksbíllinn er ónýtur og töluverðar skemmdir urðu á jeppanum auk þess sem tjónið er nokkuð á sjúkrabílnum.

Ökumaður fólksbílsins sem lenti í upphaflega árekstrinum var fluttur á slysadeild í Reykjavík en hann kvartaði undan eymslum í baki.

Suðurlandsvegi var lokað í báðar áttir auk þess sem Þrengslavegi var lokað. Svartaþoka er á Hellisheiði og í Svínahrauni frá Kambabrún vestur að Litlu kaffistofu. Glaðasólskin er í Þrengslum.

Fyrri greinViðsnúningur í rekstri Hrunamannahrepps
Næsta greinTilþrif hjá torfærumönnum