Selur við Selfoss

Landselur sást í Ölfusá við Selfoss nú síðdegis og var hann staddur við golfvöllinn á Svarfhóli laust fyrir kl. 18.

Til selsins sást í flúðunum fyrir ofan Ölfusárbrú um kl. 17:15 þar sem hann synti rösklega upp með miklum bægslagangi. Tíu mínútum síðar var hann kominn upp fyrir Efri-Laugardælaeyju.

Mjög óalgengt er að sjá til sels svona ofarlega í Ölfusá en töluvert er af sel við ósa árinnar. Þrátt fyrir nafngiftina hafa Selfyssingar sjaldan séð sel í ánni. Þó hefur frést af sel allt upp við Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi. Líklega er selurinn að elta sjóbirtingsgöngu upp ána en fyrir ofan Hrefnutanga sást hann með fisk í kjaftinum.

Nokkrir áhugamenn fylgdu selnum eftir upp með norðurbakka árinnar. Um leið og hann varð var við linsu sunnlenska.is færði hann sig yfir að suðurbakkanum. Þar fylgdist hann með stangveiðimönnum fyrir neðan Svarfhólsvöll og hélt síðan sína leið upp með ánni.

Fyrri greinRúmlega 90 þátttakendur á Halldórsmóti
Næsta greinHamar vann í hörðum leik