Enn skelfur í Flóahreppi – stærsti skjálftinn 4,1

Heldur dró úr skjálftavirkni í Flóahreppi á tólfta tímanum í gærkvöldi en þar mældist jarðskjálfti af stærðinni 4,1 kl. 21:51 og tugir eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið.

Í fyrstu var talið að stærð skjálftans hafi verið 3,7 en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Veðurstofunnar, eftir að hafa yfirfarið skjálftann taldist stærð hans 4,1.

Upptök skjálftanna eru í Sortanum norðan við Bollastaði, um sjö kílómetrum austan við Selfoss. Þetta er á Suðurlandsbrotabeltinu á þekktu sprungusvæði þar sem skjálftar um 6,5 að stærð hafa orðið á sögulegum tíma.

Um 400 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá því í gær og hafa fimm þeirra mælst rétt tæplega þrír að stærð.

Stærsti skjálftinn fannst vel víða á Suðurlandi, allt austur á Hvolsvöll og upp í uppsveitir Árnessýslu. Einnig bárust Veðurstofunni tilkynningar frá höfuðborgarsvæðinu og Akranesi.

Áfram hafa mælst litlir skjálftar í nótt og í morgun, en stærsti skjálftinn í morgun var af stærðinni 2,9 klukkan 8:27.

Fyrri greinSnarpur skjálfti fannst víða á Suðurlandi
Næsta greinSafnað fyrir fjölskyldu Andreu Eirar