„Getur haft mikla þýðingu fyrir nýliða eins og okkur“

„Svona viðburður getur haft mikla þýðingu fyrir nýliða eins og okkur, hvort sem það er í formi nýrra viðskiptavina, myndun tengslanets eða hreinlega reynslunnar sem hlýst af þátttöku í svona stórum viðburði.“

Þetta segir Selfyssingurinn Fanney Svandóttir sem hannar barnaföt undir merkinu Ylur. Í dag mun Fanney halda til Danmerkur ásamt manni sínum, Arnari Péturssyni sem sér um framleiðslu- og söluhlið Yls, til að taka þátt í tískuviðburðinum CIFF Kids.

CIFF Kids, sem stendur fyrir Copenhagen International Fashion Fair, er framsækinn og spennandi vettvangur fyrir hönnuði og framleiðendur barnavara í Norður Evrópu til að kynna vörur sínar. CIFF Kids er haldið 10.-12. ágúst næstkomandi.

Fanney segist hafa fylgst með þessum viðburði í gegnum tíðina en hann er haldinn á hálfs árs fresti. „Þarna má yfirleitt sjá leiðandi nöfn í þessum bransa, sem og smærri merki. Við ákváðum að prófa að sækja um aðgang að sýningunni og okkur bauðst 8 fermetra bás sem við þáðum að sjálfsögðu.“

„Við tökum með okkur eitt eintak af hverri flík í öllum litum. Við erum einnig með kynningarefni; bæklinga, póstkort og stór veggspjöld ásamt ýmsum fylgihlutum sem við ætlum að nota við uppstillingu á básnum okkar,“ segir Fanney.


Flíkurnar frá Yl hafa vakið mikla athygli, enda einstaklega fallegar og endingargóðar. Ljósmynd/Emilia Kristín

„Ég lít fyrst og fremst á þetta sem reynslu. Þetta er í fyrsta sinn sem við tökum þátt í svona sýningu og ég hlakka til að kynnast fólki og deila minni þekkingu með öðrum sem eru í svipuðum pælingum,“ segir Fanney.

Fanney segir að CIFF Kids leggist vel í hana. „Auðvitað er smá stress en við skulum kalla það spennublandna tilhlökkun. Þetta verður allavega skemmtilegt!“ segir Fanney að lokum.

Fyrri greinÁrbakki skemmtilegasta gatan á Selfossi
Næsta greinHreinn ráðinn sviðsstjóri hjá Skógræktinni