Adam Árni fékk jólagjöf frá sjúkraflutningamönnunum

Félag sjúkraflutningamanna á Suðurlandi afhenti í dag aðra af tveimur peningagjöfum sem er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

Það var Adam Árni Onnoy, tveggja ára drengur á Hvolsvelli, sem tók við gjöfinni ásamt móður sinni og systur í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Adam Árni er sonur Jónu Katrínar Hilmarsdóttur og Adam Onnoy og á stóru systurina Guðbjörgu Maríu, 15 ára.

Adam Árni verður þriggja ára í janúar næstkomandi en þegar hann var um það bil eins og hálfs árs greindist hann með litningagalla á 15. litningapari. Hann er, eftir því sem vitað er, sá eini á landinu sem ber þennan litningagalla.

Þessu hafa fylgt mikil svefnvandamál sem enn sér ekki fyrir endann á, en litningagallanum fylgir þroskaskerðing bæði andleg og líkamleg. Ofan á þetta greindist Adam Árni síðan með erfiða flogaveiki.

Meirihlutinn af þessu ári hefur farið í að elta uppi lyf og meðferðir sem virka á flogaveikina, en það hefur ekki enn borið árangur. Sökum flogaveikinnar hefur Adam Árni einnig þurft að dvelja á Barnaspítala Hringsins en þegar hann er sem verstur fær hann 6-10 flog á dag sem vara frá 30 sekúndum í allt að fimm mínútum.

Í heimsókninni í Björgunarmiðstöðinni í dag fékk fjölskyldan afhenta 250 þúsund króna peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum ásamt gjöfum fyrir alla fjölskylduna frá Bónus, Nettó, Fjallkonunni sælkerahúsi, Gallerí Ozone, Tryggvaskála, Bylgjum og börtum, Björgunarfélagi Árborgar og Íslandsbanka.

Eins og undanfarin ár styrkja sjúkraflutningamennirnir fjölskyldur tveggja langveikra barna, en seinni styrkurinn verður afhentur á milli jóla og nýárs.

„Þetta er í níunda skipti sem við afhendum styrki og þetta er alltaf jafn gefandi og skemmtilegt fyrir okkur. Það gefur okkur ofboðslega mikið að sjá brosið og hlýjuna og þakklætið frá fjölskyldunum,“ sagði Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is.

„Það hefur gengið vel að selja dagatalið í desember og við viljum þakka fólki kærlega fyrir góðar móttökur. Eins viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem aðstoðuðu okkur og lögðu til gjafir en allir þessir aðilar voru meira en tilbúnir að leggja okkur lið,“ sagði Stefán að lokum.

Fyrri greinSetti ellefu Íslandsmet á jólamótinu
Næsta grein„Of margar einingar tapast“