Kristjáni sagt upp hjá Brunavörnum

Kristjáni Einarssyni, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, var síðdegis í gær sagt upp störfum. Ástæðan er sú að fagráð brunavarna telur að hann hafi hækkað laun sín og aðstoðarslökkviliðsstjóra án þess að hafa til þess heimild.

Vísir greinir frá þessu.

Deiluefnið er bakvaktagreiðslur sem virðast ekki hafa verið samþykktar á fundi stjórnar en Kristján segist þó hafa fengið grænt ljós á hjá þáverandi formanni stjórnar, Eyþóri Arnalds, í árslok 2013.

Kristján segir uppsögnina, sem barst honum á heimili hans síðdegis í gær, hafa verið fyrirvaralausa. Hann hafi starfað hjá slökkviliðinu í 22 ár og alla tíð verið á bakvöktum án þess að þiggja fyrir þær greiðslur. Aðstoðarslökkviliðsstjórinn, sem Kristján réð til starfa fyrir nokkrum árum, hafi verið óánægður með launakjör sín og þá staðreynd að engar greiðslur fengust fyrir bakvaktir. Hann sagði upp störfum.

Í samtali við Vísi segir Ari Björn Thorarensen, formaður fagráðs BÁ, uppsögnina alls ekki hafa verið fyrirvaralausa enda hafi þessi mál verið til umræðu síðan í vor. Kýrskýrt sé að engin samþykkt á stjórnarfundi fyrir bakvaktargreiðslum hafi legið fyrir. Stjórnin ætlar ekki að leita til lögreglu vegna málsins heldur eigi þau von á því að Kristján telji uppsögnina ólöglega og fari í mál. Bakvaktargreiðslum aðstoðarslökkviliðsstjórans var sagt upp í maí og er í uppsagnarferli.

Fyrri greinHættustigi vegna Skaftárhlaups aflýst
Næsta greinEkki hægt að mótmæla 120 árum síðar