World Class opnar á Selfossi 2. janúar

Í dag voru undirritaðir samningar milli JÁVERK ehf og Lauga ehf um leigu þeirra síðarnefndu á líkamsræktaraðstöðu á efri hæð nýbyggingar Sundhallar Selfoss.

Einnig var undirritaður samningur á milli Sveitarfélagsins Árborgar og Lauga ehf um afnot Lauga af aðstöðu í Sundhöll Selfoss og aðgangi að sundlaug fyrir gesti líkamsræktarinnar. Undirritunin fór fram á efri hæð nýbyggingarinnar en þar skrifuðu undir samninga Björn Leifsson fyrir hönd Lauga, Gylfi Gíslason fyrir hönd JÁVERK og Ásta Stefánsdóttir fyrir hönd Árborgar.

Að sögn Björns mun líkamsræktarstöðin opna þann 2. janúar næstkomandi en stöðin mun samnýta afgreiðslu og búningsklefa með Sundhöllinni.

„Það leggst mjög vel í okkur og opna hérna og ég er þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri. Hérna verður 550 fermetra tækjasalur og 180 fermetra leikfimisalur sem er hægt er að nýta undir margskonar leikfimi og dans. Auk þess verða hér 80 fm spinningsalur með þrjátíu hjólum og 90 fm jógasalur fyrir hot-jóga og jóga. Svo hafa allir gestir stöðvarinnar aðgang að sundhöllinni,“ sagði Björn í samtali við sunnlenska.is. „Það er búið að panta tækin í stöðina, þau verða öll ný og af fullkomnustu gerð.“

Björn reiknar með því að um fjögur stöðugildi verði við stöðina auk fleiri kennara. Líkamsræktarstöðin á Selfossi verður sú tíunda á landinu sem rekin er undir merkjum World Class og segir Björn að langflestir viðskiptavina þeirra séu með kort sem veitir aðgang í allar stöðvarnar.

„Í desember verðum við með forsölu þar sem við seljum 25% ódýrari árskort og þau munu bara gilda hér á Selfossi. Öll önnur kort gilda allstaðar,“ segir Björn.

Fyrri greinÆgir Már ráðinn forstjóri Advania á Íslandi
Næsta greinBúið að opna yfir Eldvatn – gamall varnargarður brast