Kvíga skellti sér í heita pottinn

Bændurnir á Melum í Hrunamannahreppi fengu óvæntan gest til sín í heita pottinn í morgun. Kvíga sem var nýkomin út í sumarið skellti sér í bað.

„Við vorum í morgunkaffinu þegar tvær kvígur spígsporuðu framhjá okkur á kaffistofunni. Þær höfðu sloppið úr girðingu hjá Alla á Hrafnkelsstöðum og rölt yfir til okkar. Ég elti þær upp á verönd og þar voru þær að kíkja á gluggana hjá okkur. Ég veit svo ekki fyrr en önnur þeirra bröltir upp á heita pottinn og hrynur ofan í hann,“ sagði Guðjón Birgisson, garðyrkjubóndi á Melum, í samtali við sunnlenska.is.

„Henni varð ekki meint af en hún fór alveg á bólakaf ofan í pottinn og skvetturnar gengu í allar áttir. Það var nýbúið að sleppa þeim út, þær voru ekkert styggar og voru bara að forvitnast, en hún átti ábyggilega ekki von á því að lenda í baði.“

Kvígunni tókst að brölta uppúr pottinum og Guðjón náði þá myndinni af henni sem fylgir fréttinni.

„Þetta fór alltsaman vel og hún er komin til sinna heima. Alli kom og sótti hana og ég skilaði henni allavega hreinni,“ sagði Guðjón léttur í bragði að lokum.

Fyrri greinEnn brennur sina
Næsta greinÁtök við Litlu kaffistofuna