Stórfelld skemmdarverk unnin í Gagnheiðinni

Meiriháttar skemmdarverk voru framin á vinnutækjum í eigu verktaka á athafnasvæði hans við Gagnheiði 13 á Selfossi einhvernt tímann á tímabilinu frá kl. 22 sl. föstudagskvöld og til klukkan 14 á laugardaginn.

Þarna var búið að brjóta nánast allar rúður og ljós í traktorsgröfu, vörubifreið, dráttarvél, flatvagni, kerru og hestakerru. Ljóst er að mikið fjárhagslegt tjón er fyrir eiganda tækjanna.

Lögreglan telur að miðað við stærð og umfang skemmdarverkanna megi leiða að því líkum að gerandinn eða gerendurnir hafi verið í töluverðan tíma að stunda ódæðið og því hafi fylgt mikill hávaði.

Lögreglan á Suðurlandi óskar eftir vitnum eða vitneskju um það hver eða hverjir voru þar að verki. Allar upplýsingar eru vel þegnar og má koma þeim á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Suðurlandi eða í síma 444 2010. Einnig má koma upplýsingum á framfæri í tölvupósti á netfangið sudurland@logreglan.is.

Fyrri grein„Fuglaplágan setur allt í rúst“
Næsta greinHestur sparkaði í kviðinn á barni