Dagný Brynjarsdóttir er Sunnlendingur ársins 2014

Lesendur sunnlenska.is kusu knattspyrnukonuna Dagnýju Brynjarsdóttur frá Hellu Sunnlending ársins 2014.

Kosningin stóð í rúma viku á sunnlenska.is og var kjörinu lýst í áramótaþætti Suðurland FM í dag.

Dagný átti sitt besta ár með íslenska landsliðinu í knattspyrnu, dró vagninn hjá kvennaliði Selfoss framan af sumri og síðast en ekki síst þá varð hún bandarískur háskólameistari í knattspyrnu með liði Florida State háskólans.

„Það er ekkert annað,“ sagði Dagný hissa þegar sunnlenska.is sló á þráðinn til hennar þar sem hún var að undirbúa útskriftarveislu í gærkvöldi. „Það sem stendur uppúr hjá mér á árinu er gott gengi með landsliðinu á Algarve og að vera partur af Selfossliðinu sem náði sínum besta árangri á árinu og svo að vinna allt sem ég gat unnið með Florida State,“ sagði Dagný en hún hefur sópað að sér tilnefningum og verðlaunum í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Dagný er tilnefnd til hinna virtu Hermann Trophy verðlauna sem afhent eru besta knattspyrnufólki háskólaboltans. Þrjár konur eru tilnefndar en auk Dagnýjar eru það bandarísku landsliðskonurnar Morgan Brian og Sam Mewis. Tilkynnt verður um valið þann 9. janúar en Dagný flýgur út 8. janúar til þess að vera viðstödd athöfnina. „Hermann Trophy er stærsta viðurkenning sem knattspyrnumaður getur unnið og síðan ég kom til Bandaríkjanna þá hefur mig langað til að vinna þessi verðlaun,“ segir Dagný hlæjandi.

Auk þess að fara á kostum innan vallar hefur Dagný staðið sig vel í náminu og var meðal annars útnefnd íþróttanámskona ársins í Bandaríkjunum. „Ég stefndi nú ekki á þau verðlaun. Þegar ég var á fyrsta ári sá mamma mynd af þessum verðlaunanámsmönnum uppi á vegg og sagði „Dagný, þú kemur þér upp á þennan vegg!“. Ég taldi mig ekki nógu góða til þess og ætlaði bara að vera góð í fótbolta. En við fengum mikla hvatningu frá þjálfurunum að standa okkur vel í náminu og ég útskrifaðist með góða einkunn,“ segir Dagný en hún var að ljúka námi í íþróttarekstrarfræði (e. sports management).

Það vakti mikla athygli þegar Dagný gekk í raðir Selfoss fyrir síðasta tímabil eftir góð ár hjá Valsmönnum. „Ég átti frábært sumar með Selfossliðinu og er virkilega ánægð með þá ákvörðun að spila með þeim. Ég var ánægð með minn hlut og þó að það hafi verið súrt að fá ekki að spila bikarúrslitaleikinn þá langaði mig til þess að gera allt sem ég gæti til þess að liðsfélagar mínir fengju að upplifa úrslitaleik á Laugardalsvellinum. Ég var ekki að svekkja mig of mikið á því að missa af leiknum því ég ætlaði mér að spila annan úrslitaleik úti í Bandaríkjunum. Svo kemur maður örugglega einhvern tímann heim aftur og fær að spila fleiri úrslitaleiki,“ segir Dagný en nú taka við spennandi tímar hjá henni í boltanum.

„Ég verð í Bandaríkjunum frá 8.-10. janúar og fer svo strax til Þýskalands og skrifa undir samning við lið í þýsku Bundesligunni,“ segir Dagný en landsliðskonan frá Hellu var eftirsótt af liðum í Þýskalandi, Svíþjóð og á Ítalíu. „Þetta var eina liðið sem lofaði mér ekki að ég yrði lykilmaður. Ég valdi þetta lið til þess að þurfa að sanna mig, ég er að fara í hörkusamkeppni en það er það sem maður þarf til þess að bæta sig,“ sagði Dagný að lokum.

Metþátttaka var í kosningunni um Sunnlending ársins 2014 en að þessu sinni fékk 41 Sunnlendingur atkvæði. Í 2. sæti varð Guðný Sigurðardóttir á Selfossi, sem gekk kærleiksgöngu frá Reykjavík á Selfoss í sumar til minningar um dótturson sinn og í 3. sæti varð Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, sem stýrði norska liðinu til sigurs á Evrópumeistaramótinu í handbolta núna í desember.

Ítarlegt viðtal við Dagnýju verður í 1. tbl. Sunnlenska fréttablaðsins 2015.

Fyrri greinJón á Hofi er humarkóngur ársins
Næsta greinBjörgvin Karl íþróttamaður Hveragerðis 2014