„Alltaf sama djöfulsins ruglið í ykkur löggunum“

Nýju lokunarslárnar sem settar eru inn á Suðurlandsveg þegar Hellisheiðinni er lokað komu einhverjum ökumönnum í opna skjöldu í dag. Að minnsta kosti þessum, sem átti eftirfarandi símtal við lögregluvarðstjóra á Selfossi.

Frímann Birgir Baldursson, varðstjóri, sat við símann og birti síðan eftirfarandi samtal á Facebooksíðu sinni.

A: „Ég er hérna á veginum við Hveragerði og það er hlið fyrir veginum!“

Lögreglan: „Það passar. Hellisheiðin er lokuð vegna ófærðar.“

A: „Ég þarf nauðsynlega að komast til Reykjavíkur og hvað á ég að gera?“

Lögreglan: „Þrengslin eru opin. Þú getur komist þar í gegn, a.m.k. enn þá.“

A: „Þá verð ég of seinn og hvað ætlar þú að gera í því?“

Lögreglan: „Ekkert. Ég geri ekkert í því.“

A: „Þið getið ekki bara lokað veginum svona án þess að láta fólk vita með góðum fyrirvara. Ég hefði lagt af stað fyrir hádegi ef ég hefði vitað að það ætti að loka.“

Lögreglan: „Því miður stjórna ég ekki veðrinu en það var nú búið að vara við þessu veðri.“

A: „Ég hef engan tíma til þess að vera stöðugt að fylgjast með veðrinu. Ég bara treysti því að þið getið haldið vegum landsins opnum.“

Lögreglan: „Ég myndi sjálfur gjarnan vilja hafa tæki og vald til þess en svona fer þetta stundum.“

A: „…og hver á að endurgreiða mér bíómiðana sem ég er búin að kaupa? Alltaf sama djöfulsins ruglið í ykkur löggunum…“ [Skellt á]

Fyrri greinBúið að opna Hellisheiði
Næsta greinAndri með tvö mörk gegn Haukum