Klæddu sig upp og hlupu út

Tveir útlendingar stálu fatnaði úr ferðamannaversluninni á Geysi um klukkan tvö í gærdag. Mennirnir komust undan með varning að verðmæti um eina milljón króna.

Fyrr um morguninn komu mennirnir í verslunina og vöktu fljótlega grunsemdir starfsfólks. Þeir fóru út en komu svo aftur eftir hádegi. Margt fólk var þá í versluninni og ekki tök á að fylgjast með mönnunum.

Starfsmenn tóku eftir að ekki var allt með felldu og leituðu skýringa á erindi þeirra. Mennirnir, sem töluðu ensku með hreim, hlupu út með eitthvað af fatnaði í fanginu auk þess sem þeir höfðu klætt sig í fatnað úr versluninni.

Starfsmenn fóru á eftir mönnunum sem komust á brott í bifreið. Starfsfólkinu tókst ekki að ná skráningarnúmerinu á bílnum en lögregla mun fá myndskeið úr eftirlitsmyndavélum til að freista þess að bera kennsl á mennina.

Fyrri greinSöguskilti afhjúpað á bökkum Ölfusár
Næsta greinÖlvaðir og æstir á slysstað