Brjálað að gera í Landeyjahöfn

Gríðarleg umferð var í Landeyjahöfn í kvöld fyrir síðustu ferð Herjólfs til Vestmannaeyja. Bílastæðið við höfnina er löngu sprungið og teygja bílaraðirnar sig meira en einn og hálfan kílómeter frá höfninni.

Það er því næsta víst að einhverjir hafi misst af bátnum þar sem ólíklegt verður að teljast að fólk taki 1,5 kílómeters hlaup eða göngu með í reikninginn áður en haldið er til Eyja.

Talið er að um fimmtánþúsund gestir verði í Herjólfsdal í kvöld þar sem Selfyssingurinn Ingólfur Þórarinsson heldur uppi stemmningunni í brekkusöngnum.

Herjólfur fer fjölmargar aukaferðir um helgina og verða ferðir frá Vestmannaeyjum kl. 2:30, 4:00 og 5:30 í nótt. Sjö aðrar ferðir milli lands og Eyja eru fyrirhugaðar næsta sólarhringinn.

Fyrri greinGengið á Þríhyrning og Heklu
Næsta greinKríuungar drepast í stórum stíl