TARK mun hanna Hamar

TARK – Teiknistofan Arkitektar hlaut fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um stækkun á Hamri, verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, en úrslit voru tilkynnt á dögunum.

Alls bárust 25 tillögur og voru 24 metnar. Ákveðið var að verðlauna þrjár tillögur, en Teiknistofa Arkitekta, Gylfi Guðjónsson og félagar ehf. hlutu önnur verðlaun og þriðju verðlaun hlaut Arkitektastofan OG ehf.

Stækkun Hamars hefur staðið til lengi en fjárveitingar létu á sér standa, þrátt fyrir að sveitarfélög sem standa að FSu, hafi um árabil haft 140 milljónir inni á biðreikningi til verksins. Ætlunin er að með stækkuninni verði aðstaða fyrir nemendur í verk- og starfsnámi bætt verulega. Þá var gerð krafa til þess í hönnun að nýbyggingin félli vel að núverandi húsnæði.

„Byggingin er á einni hæð með verkstæðisbyggingum sem stingast upp úr heildinni og gefa þannig fyrirheit um þá starfsemi sem þar fer fram. Formið er tímalaust og burðarvirki er augljóst og um leið fræðandi og spennandi. Heildaryfirbragð er gott og er Hamar á sannfærandi hátt órjúfanlegur hluti af heildarásýnd. Guli liturinn hefur beina skírskotun til Odda og dagsbirtunotkun er góð. Aðalinngangur er í suður, beint á aðalinngang Odda og inngangur er á vesturhlið en bæta þarf tengingu við Iðu,“ segir í niðurstöðu dómnefndar, en formaður hennar er Þórunn Jóna Hauksdóttir á Selfossi, fyrrum kennari við skólann og núverandi sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu.

En dómsorðin eru ekki gagnrýnislaus. Þannig er til tekið að útfærsla á tengingu nýbyggingar við Hamar sé ekki nægilega vel unnin, eins og það er orðað. „Gangar eru langir og lítt brotnir upp, þeir eru lokaðir og vantar sterkari tengipunkt, sérstaklega þegar innar dregur frá aðalanddyri,“ segir ennfremur.

Hægt er að skoða vinningstillöguna sem og aðrar tillögur í keppninni í húsnæði FSu, til loka þessa mánaðar.

Áætlaður byggingarkostnaður er 540 milljónir króna.

Fyrri greinSameining Háskólafélags og Fræðslunets til skoðunar
Næsta greinGóð Jónsmessuhelgi hjá löggunni