Sækja göngumann í snælduvitlausu veðri

Björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Vík hafa verið kallaðar út til að sækja ítalskan göngumann sem staddur er í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi.

Maðurinn hefur verið fastur í skálanum síðan í gær en í gærmorgunsendi hann smáskilaboð til fólks sem hann hafði verið með á hóteli í Reykjavík þess efnis að hann væri fastur í aftakaveðri í skála á hálendinu og óskaði eftir aðstoð.

Samkvæmt fólkinu hafði það skilið manninn eftir á Þórsmerkurvegi síðdegis á sunnudag og hafi hann ætlað að ganga yfir Fimmvörðuháls.

Kl: 10:02 í morgun hafði maðurinn samband með neyðartalstöð, staddur í Fimmvörðuhálsskála, heill á húfi og hann beðinn um að halda kyrru fyrir þangað til að hjálp berist. Maðurinn treysti sér ekki til að halda ferð sinni áfram sökum veðurs en það er, samkvæmt lýsingum, snælduvitlaust á hálsinum.

Þyrla Landhelgisgæslu Íslands gat ekki flogið á Fimmvörðuháls vegna veðurs en fjórhjól frá Ladsbjörgu eiga stutt eftir að skálanum og verður maðurinn aðstoðaður niður.

Færið upp hina hefðbundnu leið upp Fimmvörðuháls er afar erfitt um þessar mundir, mikil aurbleyta er á vegum og slóðum. Var því ákveðið að sækja manninn snjóleiðina.

Til vara er svo verið að senda bíla og göngufólk upp hálsinn sem munu sækja manninn ef sleðarnir komast ekki alla leið.

Eins og fyrr segir er slæmt veður á Fimmvörðuhálsi og ekkert útlit fyrir að það skáni í bráð.

Fyrri greinStokkseyringar fengu skell í túnfæti forsetans
Næsta greinÖll tilboðin yfir áætlun