Ljósnetið tengt víða á Suðurlandi

Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri, Hveragerði, Þorlákshöfn, Hella og Hvolsvöllur eru meðal þeirra 53 staða sem fá Ljósnet Símans á árinu.

Ljósnet þýðir meiri hraða, öflugra net og bætta sjónvarpsþjónustu. Þar á meðal sjónvarpsútsendingar í háskerpu og tímaflakk, sem gerir fólki kleift að horfa á sjónvarpsdagskrána sólarhring aftur í tímann.

Nú þegar geta 62 þúsund fjölskyldur nýtt Ljósnetið og stefnir Síminn að því að heimilin verði 100 þúsund um mitt ár 2014.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir fyrirtækið mjög stolt af því að geta boðið Ljósnetsþjónustuna utan höfuðborgarinnar. „Ljósnetið hefur fengið frábærar viðtökur þar sem það er í boði. Við höfum verið í góðu sambandi við forsvarsmenn fjölmargra sveitarfélaga undanfarna mánuði og það er greinilega mikill áhugi á að fá kraftmeiri tengingar og aðgang að fullri sjónvarpsþjónustu á Sjónvarpi Símans.“

Sævar Freyr segir að vegna þess hve vel landsmenn hafa tekið Ljósnetinu hafi verið ákveðið að hraða uppbyggingu þess á landsbyggðinni.

„Við vitum hve mikilvægt er fyrir sveitarfélög landsins að sitja ekki eftir á tækniöld, því fjarskipti skipa lykilsess í grósku samfélaga og farsæld fyrirtækja. Við gerum því okkar besta svo fjarskiptin stýri ekki byggðaþróuninni í landinu heldur skapi tækifæri fyrir landsmenn að hasla sér völl þar sem þeir vilja helst,“ segir Sævar.

Fyrst í stað tengir Síminn Ljósnetið í símstöðvar sem gefur aukinn nethraða, og hraða sem sjá má á höfuðborgarsvæðinu, í um það bil kílómetra radíus. Næsta skref verður að tengja Ljósnetið í götuskápa, svo ná megi til jaðar byggðanna, standi þær fjarri símstöðvum. „Það skref verður tekið síðar utan þess að Ljósnetið fer strax í skápa á Selfossi. Fyrst er að ná til sem flestra. Svo er að þétta netið og ná til enn fleiri. Þannig fá sem flestir að njóta öflugra nets sem fyrst,“ segir Sævar.

Fyrri greinBetra tap vandfundið
Næsta greinTryggir KFR 1,8 milljónir króna á ári